Lengra á milli augna á Vestfirðingum

Sigurður Óli hefur verið leiðsögumaður bæði í Grímsá og Miðfjarðará. …
Sigurður Óli hefur verið leiðsögumaður bæði í Grímsá og Miðfjarðará. Stærsti laxinn hans er 102 sentímetrar og veiddist í Kjarrá. Ljósmynd/Aðsend

Veiðimaður vikunnar að þessu sinni veit að það er lengra á milli augnanna á Vestfirðingum og Strandamönnum en öðrum Íslendingum. Þetta er sjóntækjafræðingurinn og veiðileiðsögumaðurinn Sigurður Óli Sigurðsson. Hann hefur mælt bilið á milli augna landsmanna áratugum saman. Vestfirðingar og Strandamenn skera sig úr.

Siggi Óli rekur fyrirtækið ÉG C í Hamraborg í Kópavogi. Hann er sérfræðingur í að búa til veiðigleraugu sem henta fólki með nærsýni, fjarsýni, sjónskekkju, og fyrir þá sem eru komnir með þessa hefðbundnu ellisjón.

Sporðaköst fóru í heimsókn til Sigga Óla á dögunum og fengu mælingu. Niðurstaðan var tvíþætt. „Þú ert ekki Vestfirðingur og þú þarft stækkunarbletti neðarlega í glerið.“ Raunar sagði hann að sjónin væri um 160%. En það breytir því ekki að undirritaður á erfitt með að hnýta smáflugur á eða framkvæma önnur nákvæmnisverk nærri sér.

Sigurður Óli og Hjálmar Ingi Magnússon leiðsögumenn í Miðfjarðará. Siggi …
Sigurður Óli og Hjálmar Ingi Magnússon leiðsögumenn í Miðfjarðará. Siggi Óli mælir með polaroid í gul/grænum tón. Ljósmynd/Aðsend

Meira um brún augu á Austfjörðum

Hvað meinarðu að ég sé ekki Vestfirðingur?

„Jú sjáðu til. Það er lengra á milli augnanna á Vestfirðingum og Strandamönnum en öðrum Íslendingum. Bilið á milli augnanna hjá þessu fólki er 68 til 72 millimetrar. Hjá öðrum Íslendingum er bilið 64 til 65 millimetrar,“ segir hann.

En þetta er ekki fötlun er það?

„Nei, alls ekki, þetta fólk er ívið höfuðstærra og þar af leiðandi aðeins lengra bil á milli augna. Bilið sem ég mæli er frá miðjum augasteini í miðjan augastein. Fólk getur mælt þetta sjálft með reglustiku; staðið fyrir framan spegil um það bil einn metra frá honum og lesið af og þá sést þetta vel!“ Siggi Óli hlær að áhuga mínum á þessum mælingum.

Hann hefur sjónmælt afar marga Íslendinga og segir bæði Strandamenn …
Hann hefur sjónmælt afar marga Íslendinga og segir bæði Strandamenn og Vestfirðinga annars vegar og Austfirðinga hins vegar skera sig úr. Ljósmynd/Aðsend

Einhver fleiri einkenni sem þú hefur séð hjá þjóðinni?

„Austfirðingar eru mun brúneygðari en gengur og gerist almennt.“

Þú ert að hanna veiðigleraugu fyrir veiðimenn. Hvernig fólk leitar til þín?

„Ég legg mikla áherslu á að vera með polaroid í gul/grænum tón og nota bæði gler og sérstaklega hert plast. Það er þéttara ljósbrot í glerinu en plastinu og svo rispast glerið síður. Þannig að það hentar vel við íslenskar aðstæður.“

Öldrunarfjarsýnin

Siggi Óli kannast vel við veiðifólk sem er með góða sjón en sér kannski ekki vel nærri sér og það veldur vandræðum við að skipta um flugur eða leysa vindhnúta. „Hjá fólki sem er að nálgast fertugt fer að gæta svokallaðrar öldrunarfjarsýni og þá þarf styrkleika við lestur eða þegar verið er að hnýta á flugur. Þá er þörf á styrkleika upp á plús 1,5 til 2,5. Það er hægt að fá bæði í smellum ofan á veiðigleraugun eða hafa þetta brætt inn í glerið sjálft. Það er mun vandaðra og er alltaf til staðar í glerinu. Þetta virkar þannig að þú ert bara með venjuleg gleraugu og getur labbað án þess að það sé að trufla þig. Svo þegar þú þarft að hnýta á  flugu þá líturðu bara niður og horfir í gegnum styrkleikann. Þetta er það sem hefur gert kraftaverk fyrir marga veiðimenn á miðjum aldri.“

Siggi Óli segir að stór hluti viðskiptavina sinna séu veiðimenn og þá sérstaklega á þessum árstíma. Hann segir að þegar veiðivertíðin sé að hefjast fari menn yfir búnaðinn og þá sé mikið um fyrirspurnir. Hann mælir höfuðstærð því það skiptir miklu að umgjörð falli að höfuðlagi og sé ekki þvingandi á nokkurn hátt

Siggi Óli er reyndur leiðsögumaður í laxveiði. Hann var lengi vel hjá Hreggnasa í Grímsá og færði sig svo um set yfir í Miðfjörðinn. Hann er þaulvanur veiðimaður og hefur fengið þrjá fiska í hinum eftirsótta flokki 100 plús sentímetrar. Sá stærsti var í Kjarrá eða 102 sentímetrar. Hinir tveir veiddust í Miðfirði, í Austuránni, og mældust báðir 100 sentímetrar. En hann segir hiklaust að sér finnist skemmtilegra að veiða minni fiska en þessa. „Þetta er bara endalaust reiptog og ekkert annað,“ hlær hann.

En þú sást vel á málbandið?

„Já klárlega og líka fiskinn í ánni, það er að segja hvar hann lá.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira