Hann beið í 40 ár en hún í 40 mínútur

Kristín Ólafsdóttir Kiddý með 100 sentímetra hrygnuna sem hún veiddi …
Kristín Ólafsdóttir Kiddý með 100 sentímetra hrygnuna sem hún veiddi í Narra í Selá. Fjörutíu mínútum eftir að Butlerinn upplifði að fjörutíu ára draumur rættist. Ljósmynd/Aðsend

Veiðihjónin Jóhann Gunnar Arnarsson, sem hefur viðurnefnið Butler og kona hans, Kristín Ólafsdóttir eða Kiddý, áttu draumavakt laxveiðihjóna í síðasta holli í Selá í Vopnafirði.

Jóhann hafði verið að elda fyrir holl útlendinga og Kiddý að bera fram. Svo þurftu viðskiptavinirnir að fara snemma og  gáfu þeim hjónum síðustu vaktina. Þau eru bæði forfallnir veiðimenn og þáðu þau boðið með þökkum.

Butlerinn byrjaði og fyrsti veiðistaður var Neðri Djúpibotn. Fljótlega er mögnuð taka og stórlax strikar niður hylinn. Jói áttaði sig strax á því að hann var með stóran lax, enda reyndur veiðimaður. Fiskurinn strikaði áfram niður og stoppaði svo og þumbaðist. Því næst rauk hann aftur upp og bardaginn stóð í um fjörutíu mínútur. „Við höfðum verið háflaus og Kiddý brunaði upp í hús eftir háfnum, á með strikaði dýrið niður miklar flúðir, og var landað í Litluárhyl.“

Butlerinn með stærsta laxinn úr Selá í sumar. Hann tók …
Butlerinn með stærsta laxinn úr Selá í sumar. Hann tók í Neðri Djúpabotni og mældist 102 sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend

Þegar laxinum var landað nokkrum veiðistöðum neðar upplifði Butlerinn að fjörutíu ára draumur rættist. Hann mældist 102 sentímetrar og glæsilegur hængur. „ Ég var búinn að bíða eftir þessu í fjörutíu ár og gleðin var mikil. Loksins búinn að rjúfa hundrað sentímetra múrinn. Vá fjörutíu ár. Það var svo merkilegt við þennan fisk að hann var hreinlega stífur. Bara eins og að halda á drumb. Ég hef aldrei séð svona fisk áður,“ sagði Butlerinn í samtali við Sporðaköst. Þessi stórlax tók Bláma sem er fluga sem hefur verið að gefa vel í Vopnafirðinum.

Kiddý gladdist ákaflega fyrir hönd eiginmannsins. Hennar stærsti fiskur á þessum tíma var átján punda sjóbirtingur í Laxá í Kjós.

Neðri Djúpubotn er veiðistaðurinn efst á myndinni en laxinum var …
Neðri Djúpubotn er veiðistaðurinn efst á myndinni en laxinum var landað neðst á myndinni í stað sem heitir Litluárhylur. Ljósmynd/Aðsend

Þegar allir höfðu jafnað sig af þessari viðureign var haldið niður í Narra sem er veiðistaður við brúna yfir Selá. Kiddý átti að sjálfsögðu að byrja. Fyrst missti hún fisk en svo tók annar og þvílík taka. Hann rauk niður úr hylnum með Sunray shadow í kjaftinum og lengst niður flúðirnar sem taka við. Eftir mikil hlaup og erfiði tókst Kiddý að landa laxinum í Bleikjupolli sem er nokkur hundruð metrum neðar. Þessi lax var hrygna og mældist hundrað sentímetrar.

Þvílík vakt hjá hjónum í laxveiði. Butlerinn var búinn að bíða eftir þessu í fjörutíu ár en eiginkonan þurfti bara að bíða í fjörutíu mínútur. Þetta eru einu fiskarnir veiddir í Selá í ár sem hafa mælst hundrað sentímetrar eða meira og þá veiddu hjón á sömu vaktinni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Miðfjarðará Erik Koberling 18. september 18.9.
104 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 18. september 18.9.
100 cm Miðfjarðará Páll Guðmundsson 15. september 15.9.
101 cm Víðidalsá Hörður Sigmarsson 15. september 15.9.
108 cm Vatnsdalsá Ingólfur Davíð Sigurðsson 10. september 10.9.
103 cm Vatnsdalsá Nils Folmer Jörgensen 9. september 9.9.
100 cm Hrútafjarðará Gísli Vilhjálmsson 9. september 9.9.

Skoða meira