Ótrúlegt ævintýri á Mjósundi í morgun

Stærsti lax sumarsins til þessa. Aðalsteinn Jóhannsson með 104 sentímetra …
Stærsti lax sumarsins til þessa. Aðalsteinn Jóhannsson með 104 sentímetra fisk af Mjósundi í Laxá í Aðaldal. Ljósmynd/VBJ

Það var hreinlega mögnuð morgunvakt sem þeir Aðalsteinn Jóhannsson og leiðsögumaðurinn hans, Vigfús Bjarni Jónsson, upplifðu í morgun. Þegar Sporðaköst náðu tali af teyminu sátu þeir í bíl og voru að kasta mæðinni eftir að hafa landað stærsta laxi sem veiðst hefur á Íslandi í sumar.

Þeir byrjuðu á Mjósundi og fljótlega tók smálax hjá Aðalsteini. Honum var landað vandræðalaust og við tóku fleiri köst og nokkrar tökur og eltingar. Svo var sett í mjög stóran fisk og eftir töluverðan tíma sleit sá fiskur.

Hér er svo sannarlega ástæða til að brosa. Þessi viðureign …
Hér er svo sannarlega ástæða til að brosa. Þessi viðureign stóð í um hálftíma og mátti litlu muna að fiskurinn færi niður Æðarfossana. Ljósmynd/VBJ

Enn var kastað og að þessu sinni var undir lítil Sunray Shadow. Stór fiskur tók fluguna og báðir áttuðu sig á að þetta væri einn af höfðingjum Laxár. Upphófst mikil viðureign og var hinn stórvaxni hængur nálægt því að fara niður Æðarfossana en það slapp til.

Eftir um það bil hálftíma viðureign lönduðu þeir laxinum og mældist hann 104 sentímetrar að lengd og ummál var fimmtíu sentímetrar. Þetta er sá stærsti sem veiðst hefur til þessa á Íslandi í sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira