Loksins hundraðkall í Húnavatnssýslum

Hjálmar Sigurþórsson með tröllslegan hænginn sem Hnausastrengur í Vatnsdalsá geymdi. …
Hjálmar Sigurþórsson með tröllslegan hænginn sem Hnausastrengur í Vatnsdalsá geymdi. Hnausi er annálaður stórlaxastaður. Ljósmynd/Vatnsdalsá

Einn lax hefur veiðst í Húnavatnssýslum fram til þessa sem hefur náð þeirri eftirsóknarverðu mælingu, hundrað sentímetrar. Hann veiddist í Blöndu 9. júlí. Þetta er afar óvenjuleg staða fyrir þetta stórlaxasvæði, en dæmigert fyrir árferðið. Lítið er um þessa allra stærstu, en það kann að breytast þegar krókódílatíminn rennur upp.

Hnausastrengur í Vatnsdalsá gaf hundrað sentímetra fisk í morgun. Var það kærkomið og og sá fyrsti í Vatnsdal í sumar. Veiðimaður var Hjálmar Sigurþórsson og fékk hann stórvaxna hænginn á míkró túbuna Minkinn. Leiðsögumaður var Heimir Barðason.

Laxinn var tvímældur og var sléttir hundrað sentímetrar. Ummál var einnig tekið og var það fimmtíu sentímetrar.

Átta laxar komu á land í Vatnsdal í gær og þar af voru nokkrir sem veiddust fyrir ofan Flóð sem eru góðar fréttir því laxinn hefur átt erfitt með að ganga í gegnum Flóðið í Vatnsdal í þeim miklu hitum sem hafa verið á svæðinu í sumar.

Þetta er sautjándi laxinn á Íslandi í sumar sem nær þessari mælingu, hundrað sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.
102 cm Vatnsdalsá Sigurður Héðinn 11. september 11.9.
100 cm Eystri-Rangá Hilmar Ingimundarson 10. september 10.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Rögnvaldur Örn Jónsson 8. september 8.9.
101 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jörgensen 30. ágúst 30.8.
102 cm Kjarrá Jake Elliot 30. ágúst 30.8.

Skoða meira