Það hafa komið frábærir dagar í sjóbirtingnum fyrir austan. Einn sá stærsti sem frést hefur af í haust er 1. október. Þann dag lönduðu veiðimenn í Tungulæk 41 sjóbirtingi á bilinu 40 til 85 sentímetrar. Mikið var um fisk á bilinu 40 til 45 sentímetrar og er gott að sjá að yngri kynslóðir eru sterkar.
Veiðistaðirnir Holan, Faxi, Súddi og Vatnamótin gáfu fína veiði. Hollið landaði samtals sextíu fiskum og var sá stærsti 95 sentímetrar. Það er ótrúleg skepna þegar verið er að tala um silung.
Flugur á borð við Green Dumm og Black Ghost ásamt púpunni Copper John gáfu allar vel. Daginn eftir veiddust tíu birtingar og þann þriðja voru þeir sextán talsins. Þetta er mokveiði og á pari við það sem við sögðum frá úr Eldvatninu í síðustu viku.
Þessar ár eru líka í næsta nágrenni hvor við aðra. Áhyggjur manna af viðvarandi vandræðum vegna Skaftárhlaups á svæðinu dvínuðu jafn hratt og hlaupvatnið sjálft enda varð ekki mikið úr þessu hlaupi. Það óx í ánum en þær voru veiðanlegar allan tímann. Fram undan eru skemmtilegir dagar í birtingnum því flestar ár á þessum slóðum hafa opið fram til 20. október.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Vatnsdalsá | Erlendur veiðimaður | 29. september 29.9. |
101 cm | Eystri-Rangá | Grzegorz Loszewski | 27. september 27.9. |
105 cm | Hvítá við Iðu | Katrín Tanja Davíðsdóttir | 24. september 24.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Agnar Sigurjónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Hvítá við Iðu | Gunnar Pétursson | 20. september 20.9. |