Rangárnar á svipuðu róli þetta árið

Glæsileg 92 sentímetra hrygna úr Eystri-Rangá. Veiðimaður er Erling Adolf …
Glæsileg 92 sentímetra hrygna úr Eystri-Rangá. Veiðimaður er Erling Adolf Ágústsson. Síðustu dagar veiðitímans fara nú í hönd. Ljósmynd/RS

Eftir stóra árið í Eystri-Rangá vonuðust margir eftir góðri veiði þar í ár. Niðurstaðan, sem senn liggur fyrir, er að árið 2020 skar sig mjög úr veiðitölum þar eystra. 9.070 laxar veiddust í Eystri í fyrra. Í gær voru komnir 3.201 laxar í veiðibók. Það telst ágæt veiði á þeim bænum. Ef horft er aftur til ársins 2013 þá er veiðin betri en flest árin. Það er einungis 2018 sem gaf meiri veiði, en þá slagaði Eystri í fjögur þúsund laxa.

Ef við skoðum aðeins Ytri-Rangá þá er hún með mesta heildarfjölda laxa í sumar á Íslandi. Komin núna í 3.355 og veiði lýkur þar 20. október. Þetta er töluvert meiri veiði en í fyrra þegar Ytri skilaði 2.642 löxum. Árið 2019 var það lélegasta í mjög langan tíma, þegar einungis 1.675 laxar veiddust.

Þó að árið í ár sé mun betra en síðustu tvö ár, þá getur árið í ár ekki talist gott. Þetta er fjórða lélegasta ár í Ytri frá árinu 2006. Stóra árið var 2008 þegar 14.315 löxum var landað. Við tók svo 2009 sem skilaði 10.749 löxum eða þrisvar sinnum meiri veiði en í ár. Spennandi verður að sjá næsta ár í báðum þessum ám, þar sem miklar og djúpar pælingar eru í gangi með seiðasleppingar og vitneskjan er að aukast þó að það sé ekki að endurspeglast í veiðitölum sumarsins.

Jóhannes Hinriksson með gullfallegan lax úr Ytri Rangá. Hann kveður …
Jóhannes Hinriksson með gullfallegan lax úr Ytri Rangá. Hann kveður Ytri eftir farsæl ár og nýr umsjónaraðili tekur við keflinu. Jóhannes og hans teymi skila Ytri-Rangá af sér sem aflahæstu á, árið 2021. Ljósmynd/Aðsend

Nýr umsjónaraðili tekur við Ytri-Rangá næsta sumar. Jóhannes Hinriksson og hans teymi kveður eftir farsæl ár og við keflinu taka hjónin Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir undir merkjum IO. Þau taka ána í umboðssölu og er það nýmæli á þessum slóðum.

Báðar árnar loka í næstu viku, en veiðin er orðin afskaplega róleg þó að hagstæð veðurskilyrði geti gefið góða daga. 20. október er lokadagur. 

Enn er einnig veitt í Affallinu og Þverá í Fljótshlíð. Affalið hefur skilað fimm hundruð löxum, sem er innan við þriðjungur af heildarveiði síðasta sumars þegar 1.729 laxar veiddust. Þverá er í svipaðri stöðu. Þann 6. október höfðu veiðst þar 150 laxar en heildarveiði síðasta árs var 616 laxar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira