Markmiðið er fliss í sófa á jólum

Ólafur Tómas Guðbjartsson er höfundur bókarinnar Dagbók urriða sem kemur …
Ólafur Tómas Guðbjartsson er höfundur bókarinnar Dagbók urriða sem kemur í verslanir í lok nóvember. Hér er hann með fallegan birting sem hann fékk í Hópinu í fyrra. Ljósmynd/ÓTG

Það verður nóg af lesefni fyrir veiðimenn um jólin. Bókin Dagbók urriða er væntanleg í verslanir í lok nóvember. Höfundur er Ólafur Tómas Guðbjartsson og hefur hann fyrir nokkru skráð heitið Dagbók urriða kyrfilega í huga veiðimanna. Hann gerði eftirminnilega sjónvarpsþætti undir sama heiti og hefur gert hlaðvarpsþætti og fjöldann allan af færslum undir þessu sama nafni á samfélagsmiðlum. Við náðum tali af Ólafi eftir að hann vakti athygli á bókinni. Hvernig bók er þetta, fyrir utan að vera augljóslega veiðibók?

Dagbók urriða er í raun veiðidagbók höfundar í þrjátíu ár …
Dagbók urriða er í raun veiðidagbók höfundar í þrjátíu ár en sett fram með gamansömu ívafi. Ljósmynd/ÓTG

„Dagbók urriða er í raun veiðidagbókin mín síðastliðin þrjátíu ár. Í bókinni skrifa ég á gamansaman hátt um reynslu mína sem silungsveiðimaður, sigra og sorgir, mistök og lærdóm, ásamt því að kafa ofan í pælingar um hegðun fiska, náttúruna og lífríki hennar, sagnfræði, atferli veiðimanna ásamt öðru skemmtilegu og fræðandi efni. Ég lagði upp með að skrifa bók sem væri fyndin en í senn fræðandi. Bók sem hægt væri að flissa yfir upp í sófa um jólin,“ sagði rithöfundurinn í samtali við Sporðaköst.

Höfundur tólf ára með sjóbleikju sem hann veiddi við brygguna …
Höfundur tólf ára með sjóbleikju sem hann veiddi við brygguna á Blönduósi 1993. Við ræsið var það Íslandsspúnninn sem gaf best. Ljósmynd/ÓTG

Dagbók urriða kemur í verslanir í lok nóvember. Forlagið Salka gefur út bókina, enda annálaðar veiðikonur sem þar halda um stjórnartaumana og brenna fyrir sportið, eins og Ólafur Tómas orðar það.

„Ég ætla að vera duglegur að kynna bókina og setja saman viðburði fyrir veiðimenn til þess að hittast, spjalla og hafa gaman er nær dregur útgáfudegi,“ sagði rithöfundurinn.

Það verður nóg að lesa fyrir veiðimenn um jólin. Eins og komið hefur fram er bókin Gengið til rjúpna, eftir Dúa Landmark þegar komin í verslanir og jafnvel er von á fleiri bókum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira