Veiðiréttur í Laxá í Leirársveit verður boðinn út frá og með sumrinu 2023. Félagið Sporðablik sem er með ána á leigu og hefur verið í fjöldamörg ár, er með samning út næsta sumar. Á félagsfundi sem haldinn var síðasta dag nóvember mánaðar var samþykkt að auglýsa veiðirétt í Laxá og vötnin í Svínadal þar sem leitað verði eftir „samstarfsaðila um markaðssetningu og sölu veiðileyfa á öllu vatnasvæði Laxár frá og með árinu 2023,“ eins og segir í tillögunni sem samþykkt var á félagsfundinum.
Hallfreður Vilhjálmsson formaður veiðifélags Laxár í Leirársveit staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst. Stjórn veiðifélagsins á eftir að koma saman og útfæra nánar hvernig framkvæmdinni verður háttað en ljóst er að áin og veiðisvæðið í heild sinni verður auglýst á nýju ári.
Hallfreður telur raunhæft að auglýsing um leiguna verði birt í febrúar án þess að nákvæm tímasetning liggi fyrir. Hann segir þó að þegar hafi áhugasamir aðilar sett sig í samband við veiðifélagið vegna þessa.
Laxá í Leirársveit skilaði 850 löxum í sumar og er það besta veiði í ánni frá árinu 2015 þegar veiðin var 1.121 lax. Miklar sveiflur hafa verið í veiðinni í Leirársveit undanfarin ár og fór hún niður í 300 laxa þurrkasumarið 2019.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Richard Jewell | 9. ágúst 9.8. |