Stórfiskaveisla í Slóveníu

Þeir félagar lentu í mokveiði. Davíð, Ólafur Tómas og Hallgrímur. …
Þeir félagar lentu í mokveiði. Davíð, Ólafur Tómas og Hallgrímur. Allir nýbúnir að landa stórum regnbogasilungi í Slóveníu. Ferðin tókst vonum framar. Ljósmynd/ÓTG

Hópur íslenskra veiðimanna á vegum Fish Partners lentu heldur betur í veiðiveislu í Slóveníu. Fararstjóri var Ólafur Tómas Guðbjartsson og hann segir að þetta ævintýri hafi farið fram úr björtustu vonum. Hópurinn landaði hátt í hundrað fiskum á fjórum og hálfum veiðidegi og meirihlutinn var stór og öflugur fiskur.

„Þetta er búið að vera alveg meiriháttar og mögnuð veiði hreinlega,“ sagði kátur Ólafur Tómas í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Það er til muna ódýrara að veiða í Slóveníu en heima á Íslandi. Ár í landinu eru í ríkiseigu. Þar á móti kemur að þú getur átt von á öðrum veiðimönnum inn á svæðið eða í hylinn. Ólafur segir að þeir hafi ekki lent í því í þessari ferð. „Það kom okkur á óvart hvað við hittum fáa aðra veiðimenn.“

Davíð Sigurðarson með þykkan og flottan regnboga. Þeir veiddu líka …
Davíð Sigurðarson með þykkan og flottan regnboga. Þeir veiddu líka aðrar tegundir en uppistaðan var regnbogasilungur á bilinu fjögur til átta pund. Ljósmynd/ÓTG

Veiðitímabilið var að hefjast í nokkrum af þeim ám sem þeir félagar veiddu. Þeir voru að kasta á regnbogasilung, bæði villtan og alinn. „Við vorum með frábæra leiðsögumenn og þeir þekktu svæðin sín vel. Þeir fóru með okkur á stað þar sem oft mæta villtir regnbogar. Leiðsögumaðurinn hafði aldrei séð svona mikið af honum eins og þegar við mættum. Við vorum bara hreinlega í moki og þetta var algert ævintýri. Manni dettur helst í hug Tóti tönn í Blöndu í gamla daga. Við vorum stundum með fisk á þremur stöngum og leiðsögumaðurinn var í basli að háfa þetta allt. Það sem var líka svo mikill bónus miðað við væntingar var að það var svo mikið af þessum fiski virkilega vænn. Hann var á bilinu fjögur til átta pund.“

Sumar árnar eru svo tærar að fiskar sjást langt að. …
Sumar árnar eru svo tærar að fiskar sjást langt að. Hér sjást tveir fyrir ofan brú og einn fyrir neðan. Ljósmynd/ÓTG

Í þessum ám sem þeir veiddu er líka að finna brúnan urriða eða eins og sá sem er hér á landi. Mjög vænir fiskar eru innan um og sagðist Óli hafa séð einn slíkan sem var á bilinu áttatíu til níutíu sentímetrar.

„Við fengum nokkra urriða en engan mjög stóran. Tveir grayling veiddust og svo fórum við í marble silung og náðum nokkrum svoleiðis. Svo sáum við þarna fisk sem heitir huchen eða hucho hucho og getur orðið risastór. Hann er friðaður á þessum tíma. Þetta er mikill ránfiskur og getur orðið sextíu til sjötíu pund sögðu leiðsögumennirnir og við sáum nokkra slíka."

Fararstjórinn með regnbogasilung. Hópurinn landaði um hundrað fiskum. Ólafur Tómas …
Fararstjórinn með regnbogasilung. Hópurinn landaði um hundrað fiskum. Ólafur Tómas er að vinna stuttmynd um ferðina og birtist hún á Patreon aðgangi Dagbókar urriða. Ljósmynd/ÓTG

Megnið af veiðinni var sjónveiði. Þannig að þeir sáu fiskana sem þeir voru að kasta á. Leiðsögumennirnir voru ósparir á leiðbeiningar og segir Óli að þeir hafi allir bætt sig sem veiðimenn í ferðinni. Þetta hafi verið ígildi framhaldsskólanáms í púpuveiði.

Eru þið að nota íslenskar flugur?

„Ekki mikið. Það er annars konar klak í gangi hér. Þetta eru ljósbrúnar púpur og með bláu í. Ef þú ert að fiska eftir því hvort Galdralöppin virki hér, þá gerir hún það ekki. Ég hafði hnýtt nokkrar samsetningar fyrir þessa ferð og þær voru líka að virka.“

Óli segir að allur aðbúnaður hafi verið frábær. Gott fólk og það talar upp til hópa ensku og er einkar vingjarnlegt. Maturinn var vel útilátinn og þeir voru mest að borða þjóðlega slóvenska rétti.

Slóvenskt smá þorp. Fallegt og friðsælt.
Slóvenskt smá þorp. Fallegt og friðsælt. Ljósmynd/ÓTG

Ólafur Tómas er að vinna stuttmynd úr ferðinni og verður hún fljótlega aðgengileg á Patreon aðgangi Dagbókar urriða.

Þessi ferð var sú fyrsta sem skipulögð var af Fish Partner til Slóveníu en þegar eru uppi hugmyndir um haustferð. Óli segir mikinn áhuga hafa kviknað þegar spurðist út hvernig veiðin hefði verið hjá þeim félögum. En hvenær og hvort haust ferð verður farin kemur í ljós síðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira