Hversu stórir verða stærstu birtingarnir?

Magnaður sjóbirtingur. Kristján Páll Rafnsson veiddi þennan sjóbirting, haustið 2020. …
Magnaður sjóbirtingur. Kristján Páll Rafnsson veiddi þennan sjóbirting, haustið 2020. Hann mældist 93 sentímetrar. Veiðistaðurinn er Syðri-Hólmi í Tungufljóti. Þykktin á þessum fiski er rosaleg. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur í vor, kom á land fyrir nokkrum dögum síðan í Eldvatni í Meðallandi. Fiskurinn mældist 99 sentímetrar. Veiðimaðurinn sem fékk hann hefur veitt árum saman í Eldvatninu og var staddur í veiðistaðnum Villa. Síminn var orðinn batteríslítill þegar hann kom í Villann. Hann ákvað að setja símann í hleðslu í bílnum áður en hann óð út á veiðistaðinn. Engar myndir eru því til að þessum met fiski.

En komum þá að spurningunni í fyrirsögn greinarinnar. Við leituðum til Jóhannesar Sturlaugssonar sem merkt hefur mikið magn af sjóbirtingi og greint verulegt magn af hreisturssýnum frá sjóbirtingum. Nú hafa veiðst í vor bæði 99 og 98 sentímetrar fiskar. Hvað verður sjóbirtingurinn stór við kjöraðstæður?

„Yfirleitt erum við ekki að sjá stærri fiska en þetta. Þeir geta orðið rúmlega meter en það er svo sjaldgæft að rekast á þannig skepnur. Það hafa verið mjög burðugir fiskar í Skaftárkerfinu en þeir hafa líka fundist mjög stórir Kúðafljótsmegin, þó svo að magnið þar sé ekki mun minna. Ég hef farið í gegnum þúsundir fullvaxinni sjóbirtinga og ég hef ekki handfjatlað fisk sem nær metranum.“

Stærð styrtlunnar leynir sér ekki. Þetta er gamalreyndur hængur sem …
Stærð styrtlunnar leynir sér ekki. Þetta er gamalreyndur hængur sem mætt hefur nokkrum sinnum áður í Tungulæk. Þessi birtingur mældist sléttir 100 sentímetrar. Ljósmynd/TKE

Eru þetta ekki algerir met fiskar þegar þeir eru komnir í og yfir níutíu sentímetra?

„Jú. Það má alveg segja það. Fiskur sem er orðinn þetta stórvaxinn er iðulega farinn að beygja af. Við sjáum að hrygnur sem eru komnar í og yfir níutíu sentímetra er orðnar mjög gamlar og farnar að verða lúnar. Elsta hrygnan sem ég rannsakaði í Skaftárkerfinu var sléttir níutíu sentímetrar og hún var fjórtán ára gömul. Ég held að þetta sé einhvers konar Íslandsmet með sjóbirtingshrygnu því ekki hef ég heyrt af eldri sjóbirtingi. Það getur verið að einhvers staðar séu til gögn um eldri fisk, en ég hef ekki rekist á þau.

Jóhannes Sturlaugsson merkti sjóbirting í Tungulæk, hér á árum áður. …
Jóhannes Sturlaugsson merkti sjóbirting í Tungulæk, hér á árum áður. Hrygnan sem hann tók hreistursýni af, reyndist fjórtán ára gömul og hafði hrygnt níu sinnum. Ljósmynd/Laxfiskar

Fjórtán ára var hún og hafði gengið ellefu sinnum til sjávar og hrygnt níu sinnum. Það má segja að þessi aldna drottning hafi skilað býsna góðu dagsverki.“

Hann Maros Zatko hefur landað þeim næst stærsta sem sögur fara af í vor. Það var engin smá skepna eða 98 sentímetra sjóbirtingur sem hann veiddi í Skaftá, á Ásgarðssvæðinu, rétt neðan við útfall Tungulækjar.

Sá þriðji stærsti er 96 sentímetra fiskur sem veiddist í Geirlandsá, í Ármótum. 

95 sentímetra fiskur er bókaður úr Vatnamótum.

Magnús Már Magnússon, til hægri setti í og landaði þessari …
Magnús Már Magnússon, til hægri setti í og landaði þessari 96 sentímetra sleggju í Tungulæk. Honum til aðstoðar var Maros sem hér lyftir þessum vel vaxna sjóbirtingi. Ljósmynd/TKE

Veiðistaðurinn Siggi í Tungulæk gaf 93 sentímetra fisk fyrr í mánuðinum og tók sá Black Ghost. Annað tröll veiddist í Dodda fyrir nokkrum dögum og mældist hann 92 sentímetrar og tók Green Dumm.

Samtals eru komnir þrír birtingar í vor úr Eldvatninu sem eru 90 sentímetrar og lengri. Sá stærsti er nefndur ofar í fréttinni en hinir tveir mældust 92 og 90 sentímetrar.

Húseyjarkvísl er með 88 sentímetra fisk sem veiddist í opnunarhollinu á Black Ghost Skull í veiðistaðnum V22.

Allir þessir fiskar sem nefndir eru hér að ofan eru fiskar í efsta flokki þegar kemur að sjóbirtingi. Sporðaköst hafa undanfarin ár greint frá þremur birtingum sem náðu hundrað sentímetrum. Einn veiddist fyrir ári síðan í Tungulæk og annar veiddist 2020 í Flögubakka í Tungufljóti. Þá veiddist 102 sentímetra sjóbirtingur í Geirlandsá í vorveiðinni í fyrra.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira