Lönduðu tólf fiskum á fyrsta klukkutíma

Tveir Bjarnasynir með flottan urriða frá því í morgun. Sigurjón …
Tveir Bjarnasynir með flottan urriða frá því í morgun. Sigurjón Bjarni með háfinn og Hafþór Bjarni með stöngina. Þeir hafa verið í magnaðri veislu í morgun. Ljósmynd/Bjarni Júl

„Við vorum byrjaðir að veiða rétt fyrir hálf níu og við erum búnir að landa tólf fiskum á rúmum klukkutíma. Við settum í hann á Sauðavaðinu og svo er bara veisla hér í Brotaflóanum,“ sagði Bjarni Júlíusson í samtali við Sporðaköst í morgun. Hann ásamt fleiri öflugum veiðimönnum eru að opna urriðasvæðið í Laxá í Mývatnssveit og hafa gert nú árum saman.

„Við höfum verið að kasta Holunni og með lítinn BAB sem dropper og flestir hafa verið að tala BABinn en líka Holuna. Ég man ekki eftir svona byrjun hjá okkur feðgum. Þeir sem draga Geirastaðalandið og geta byrjað í Skurðinum eru oft að gera fanta veiði en við höfum ekki lent í svona moki áður á fyrstu vakt og hún er ekki hálfnuð. Ég verð að segja að ég hef aldrei séð annað eins. Sjáðu bara,“ sagði Bjarni og setti á myndsímtal. Þá var sonur hans að slást við flottan urriða í Brotaflóanum. Eftir smá stund lak sá af en á meðan að á símtalinu stóð settu þeir Bjarnasynir í fjóra flotta urriða. „Þeir eru að taka grannt enda smáar flugur. En nú verð ég að hjálpa. Þetta er golli,“ og það síðasta sem sást til þeirra feðga var sveiflan á netinu í háfnum áður en símtalinu var slitið.

Bjarni Júlíusson, pabbi gamli með urriða sem tók BABinn í …
Bjarni Júlíusson, pabbi gamli með urriða sem tók BABinn í fyrsta kasti á Sauðavaði. Bjarni segist bara vera orðlaus. Ljósmynd/SBJ

Áður höfðum við tekið stöðuna almennt. "Það er geggjaður hiti og blússandi klak og fiskur að velta sér um allt. Við vorum heppnir með drátt og lentum á Helluvaðslandinu. Brotaflóinn er frekar grunnur og svartur sandbotn og hann hitnar vel í þessu mikla sólskini.“

Magnaðir veiðistaðir eru neðar á svæðinu eins og Stekkjaskerjapollur og Steinbogaey. „Ég er ekki viss um að við nennum þangað niður eftir. Enda til hvers að færa sig þegar hér er linnulítil taka? Enda sko ég er næstum því orðlaus. Í fyrra fyrir ári síðan drógum við þetta sama svæði og vorum þá í norðan tuttugu metrum. Maður stóð varla og átti erfitt með að kasta með þetta allt í fangið. Þá særðum við upp tvo fiska á vaktinni. Við eigum enn eftir að veiða heitustu staðina í Brotaflóanum. Sko hann er aftur með hann,“ hló Bjarni.

Sigurjón Bjarni með eitt eðal eintak. Þessi fiskur er afar …
Sigurjón Bjarni með eitt eðal eintak. Þessi fiskur er afar vel haldinn og spikaður. Ljósmynd/HBB

En þessu er misskipt. Félagar þeirra byrjuðu í Arnarvatnslandi og annar þeirra var ekki búinn að fá högg en hinn hafði landað einum. Í Arnarvatnslandinu eru þó spennandi veiðistaðir eins og Þuríðarflóinn, Sandvik og margir fleiri.

Það er líka verið að opna Laxárdalinn sem er neðan við Mývatnssveitina og verður gaman að fá fréttir þaðan og fleiri sögur af efra svæðinu. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira