Fyrsti laxinn úr Dölunum var hundraðkall

Vindbarinn en alsæll með fyrsta hundraðkallinn sem hann veiðir á …
Vindbarinn en alsæll með fyrsta hundraðkallinn sem hann veiðir á Íslandi. Þessi veiddist í Kristnapolli og mældist sléttir 100 sentímetrar. Ljósmynd/HHÞ

Laxá í Dölum opnaði í morgun og það með stæl. Einn þekktasti veiðistaður árinnar, Kristnipollur stóð undir öllum væntingum viðstaddra þrátt fyrir skíta veður. Lofthiti þrjár gráður og hvasst. Stefán Sigurðsson byrjaði morguninn á því að setja í lax í veiðistaðnum Dönustaðagrjótum en sá endaði með að slíta sig lausan.

„Ég fór næst niður í Kristnapoll og byrjaði með Sunray en fékk engin viðbrögð á þá flugu. Þá setti ég lítinn rauðan kón undir og kastaði á hefðbundinn stórlaxastað í Kristnapolli. Þá tók þessi líka svakalega fallegi lax. Ég var einn og símasambandslaus á köflum en náði þó í kokkinn okkar, hana Söru Pétursdóttur og hún brenndi til mín og kippti Hörpu með,“ sagði Stefán i samtali við Sporðaköst nú í hádeginu. Harpa Hlín Þórðardóttir aðstoðaði við löndun og þegar fiskurinn var mældur stóð hann slétta hundrað sentímetra.

Veiðhjónin ánægð með þennan svakalega fisk. Brauðtertan var svo kirsuberið, …
Veiðhjónin ánægð með þennan svakalega fisk. Brauðtertan var svo kirsuberið, en Stefán elskar brauðtertur. Ljósmynd/SP

„Nú er maður kominn í hundraðkallaklúbbinn. Loksins og svakalega er það gaman. Ég hef veitt ábyggilega einhverja fimm hundruð laxa sem eru á bilinu 95 til 99 sentímetrar en þetta er fyrsti lax á Íslandi sem ég veiði sem nær hundrað sentímetrum. Ég hef veitt fiska í þessum stærðarflokki í Rússlandi en ekki á Íslandi.“ 

Stefán var í sjöunda himni með morguninn og ekki spillti fyrir að Sara tók með sér brauðtertu niður að Kristnapolli og ef eitthvað gleður Stefán Sigurðsson meira en hundraðkall þá er það brauðterta. „Hún hitti beint í hjartastað.“

Löndunin var rétt ofan við lækinn sem rennur út í Kristnapoll, eftir að fiskurinn hafði tekið strauið upp hylinn og langleiðina upp á Horn.

Veistu um fleiri landaða fiska í Laxá í morgun?

„Nei ég hef ekki frétt af fleirum en hitastigið er komið upp í sex gráður þannig að þetta lítur betur út. Hún er í flottu vatni, eins flottu og hún getur verið. Það væri gott ef myndi aðeins lægja og maður gæti áttað sig betur á þessu.“

Í þann mund sem Sporðaköst óskuðu Stefáni til hamingu með þennan flotta fisk og voru að fara að kveðja, kallaði hann upp yfir sig. „Harpa er með hann. Hún baðar út öllum öngum og er með hann í Kristnapolli.“

Sendu mér mynd þegar hún er búin að landa?

Dú dú dú dú sagði síminn. Stefán var rokinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira