Þeir stóru eru mættir í Aðaldalinn

Fjórir laxar í þessum stærðarflokki hafa tekið flugur veiðimanna fyrir …
Fjórir laxar í þessum stærðarflokki hafa tekið flugur veiðimanna fyrir neðan fossa. Þessi var sá eini sem náðist á land og mældist 103 sentímetrar. Ljósmynd/NFJ

„Þetta er búið að vera upp og ofan hjá okkur í sumar. En ég get fullyrt það að ég er búinn að sjá meira af fiski fyrir neðan Æðarfossa það sem af er sumri heldur en ég sá í allt fyrra sumar. Þessi fiskur veður upp og við höfum ekki verið að finna hann ennþá í uppánni,“ sagði Árni Pétur Hilmarsson einn af rekstraraðilum Laxár í Aðaldal.

Laxá hefur gefið örlítið betri veiði en á sama tíma í fyrra en Árni Pétur vonast eftir því að fiskarnir upp frá eigi eftir að koma meira inn í veiðina á næstu dögum.

Gengi Laxár hefur verið virkilega dapurt síðustu þrjú ár þegar áin hefur verið að gefa milli fjögur og fimm hundruð laxa. „Þetta verður ekkert bingó sumar hjá okkur en það eru allar líkur á að við fáum betra sumar en undanfarin ár.“

Það er búið að vera mikið vatn í Laxá eins og sést á myndinni sem fylgir með fréttinni.

Smálaxinn er mættur snemma í Aðaldalinn og með honum koma gjarnan stærstu synir Laxár. Síðasta sólarhring glímdu veiðimenn við fjóra slíka neðan við Æðarfossa. Fyrst setti Nils Folmer Jorgensen í tvo slíka. Annan í Miðfosspolli og hinn  í Fosspolli. Báðir þessir stórfiskar fóru höfðu betur í baráttunni við hundraðkallahvíslarann. Þriðja fiskinn barðist þýskur veiðimaður við og var Árni Pétur sjálfur að aðstoða þann veiðimann. Hann fullyrti í samtali við Sporðaköst að sá fiskur hefði staðið hundrað sentímetra. En sagan var ekki öll.

Nils setti í enn einn risann fyrir neðan fossa og hafði loks betur. Sá var lúsugur og barðist af ægi krafti eins og bræður hans. Nú hafði Nils betur og landaði við erfiðar aðstæður 103 sentímetra hæng. Hann tók Autumn Hooker hálf tommu flot túbu. „Frábær morgun í drottningunni sem var svo hugguleg að lána mér einn af gimsteinunum sínum," sagði Nils eftir þessa vakt.

Þetta er annar hundraðkallinn sem veiðist í Laxá í sumar. Sá fyrri veiddist þann 24. júní og mældist 102 sentímetrar. Laxá er sú á hérlendis sem gefur árlega flesta slíka stórlaxa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert