Víða komin þreyta í menn og laxa

Frá Selá í Vopnafirði. Hún fór yfir þúsund laxa múrinn …
Frá Selá í Vopnafirði. Hún fór yfir þúsund laxa múrinn í vikunni. Á sama tíma í fyrra var hún með rétt um sjö hundruð laxa. Vikuveiðin i Selá var 94 laxar í nýliðinni viku. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mynstrið í laxveiðinni er á sömu nótum og síðustu vikurnar. Rangárnar báðar gáfu góða veiði í síðustu viku og er sú Ytri nú komin yfir fjögur þúsund laxa, með vikuveiði upp á 776 fiska í síðustu viku. Þar munar að sjálfsögðu mestu um maðkaopnunina sem skilaði sjö hundruð löxum á fjórum dögum. Veiði í Eystri var líka góð með vikuveiði upp á 463 laxa. 

Vopnafjarðarárnar halda áfram að gefa góða veiði og voru bæði Selá og Hofsá með flotta veiði. Miðfjörðurinn er að eiga ágætar vikur en og fór yfir áttatíu laxa í vikunni sem leið. Við birtum hér lista yfir tíu efstu árnar en hægt er að sjá tölur yfir mun fleiri ár inni á angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga.

Greina má þreytu bæði í löxum og mönnum. Margur leiðsögumaðurinn er orðinn rasssíður  þegar komið er fram á þennan lokasprett veiðinnar. Þreytan kemur einnig fram í því að sífellt fleiri ár senda ekki veiðitölur inn til angling og þá verður listinn bæði ómarkvissari og um leið minna áhugaverður. Vonandi taka menn sig saman í andlitinu og laga þetta þessar síðustu vikur.

Laxarnir sem sumir mættu í júní eru búnir að sjá allar flugur sem hnýttar hafa verið. Hættir að kippa sér upp við þær. Hins vegar er hann farinn að huga að hreiðurgerð og verður þá skapstyggari en áður og gæti hæglega í einhverju fýlukasti tekið aðvífandi flugu. Nú eða þeir eru einfaldlega að taka til í kringum sig og vilja ekki þessi aðskotadýr í námunda við hrognin sín. En þetta er ekki vitað að fullu og eins og sumir segja, sem betur fer.

Við birtum hér topp tíu listann og í sviga fyrir aftan er fjöldi laxa sem höfðu veiðst á sama tíma í fyrra. Þriðja talan er svo vikuveiði síðustu viku.

1. Ytri – Rangá og Vesturb. Hólsár 4.037 (2.822) Vikuveiði 776

2. Eystri – Rangá 2.985 (2.598) Vikuveiði 463

3. Þverá/Kjarrá  1.313 (1.259) Vikuveiði 23

4. Miðfjarðará 1.290 (1.428) Vikuveiði 83

5. Norðurá 1,280 (1.337) *Vikuveiði liggur ekki fyrir

6. Hofsá 1.097 (526) Vikuveiði 82

7. Selá 1.071 (708) Vikuveiði 94

8. Urriðafoss 943 *Vantar tölur fyrir síðustu viku

9. Langá  901 (703) Vikuveiði 76

10. Haffjarðará 817 (839). Vikuveiði 43

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.
101 cm Víðidalsá Rögnvaldur Guðmundsson 12. september 12.9.
103 cm Ytri - Rangá Adrian Stauss 8. september 8.9.

Skoða meira