Mokveiði í Kjósinni á endasprettinum

Þessi 93 sentímetra hængur veiddist í Speglinum í Kjósinni í …
Þessi 93 sentímetra hængur veiddist í Speglinum í Kjósinni í gær. Jóhann Gunnarsson brosir sínu breiðasta með þennan flotta stórlax. Ljósmynd/Laxá í Kjós

Það hefur verið hörkuveiði í Laxá í Kjós síðustu daga. Þannig skilaði dagurinn í gær fjörutíu löxum og er það einn besti dagur veiðitímans þar í sumar. Haraldur Eiríksson leigutaki segir að síðustu dagar hafi verið virkilega góðir. „Þetta byrjaði á mánudag og þá komu átján laxar á seinni vaktinni. Það eru komnir 91 lax á síðustu þremur dögum. Við fengum líka alger rjómaskilyrði þessa daga og það skilaði sér heldur betur,“ sagði Haraldur í samtali við Sporðaköst.

Laxá í Kjós var með þessari veiðisíðustu daga komin í 937 laxa eftir gærdaginn. Síðasti veiðidagurinn í laxinum er svo á morgun. Það mun standa tæpt að hún nái i þúsund laxa en þetta er engu að síður ágætis sumar í Kjósinni.

Landssamband veiðifélaga birti í hádeginu vikutölur í laxveiðinni. Mesta veiðin var í Ytri – Rangá eða 220 laxar. Kjósin fór upp fyrir Eystri – Rangá í vikuveiðinni. Skilaði 135 löxum en Eystri var með 122.

Aðeins hægði á veiði í Affallinu sem gaf 66 laxa í nýliðinni viku á móti hundrað í vikunni þar á undan. Aðrar ár sem vert er að nefna er Stóra – Laxá sem nú er komin í 846 laxa með vikuveiði upp á 66 laxa. Besta ár í Stóru í langan tíma.

Víðidalsá skilaði ríflega fjörutíu löxum og er að nálgast átta hundruð laxa og hefur ekki átt betra ár frá 2016 þegar hún gaf 1.137 laxa. 

Laxá í Dölum hefur ekki birt tölur í nokkurn tíma en Sporðaköst hafa heyrt af því að þar hefur verið mjög róleg veiði. Dalirnir eru að eiga nokkuð öðruvísi ár. Nú hefur verið gott vatn í ánni í allt sumar og því hefur laxinn mætt þegar honum þóknaðist en ekki þurft að bíða eftir haust rigningum. Það er mál manna sem vel þekkja til að nokkuð minna sé af laxi í henni en í fyrra.

NA – hornið átti gott sumar og allar laxveiðiár sem þar renna til sjávar gáfu mun betri veiði en í fyrra. Sumar jafnvel tvöfalda veiði á við síðasta sumar samanber Hofsá í Vopnafirði sem gaf 1.211 laxa í ár miðað við 601 í fyrra.

Við birtum hér topp tíu listann og í sviga fyrir aftan er fjöldi laxa sem höfðu veiðst á sama tíma í fyrra. Þriðja talan er svo vikuveiði síðustu viku. Þar sem eru komnar lokatölur birtum við lokatöluna fyrir 2021 fyrir aftan.

1. Ytri – Rangá og Vesturb. Hólsár 4.662 (3.242) Vikuveiði 220

2. Eystri – Rangá 3.534 (3.014) Vikuveiði 122

3. Miðfjarðará 1.509 Lokatölur. 2021 – 1.796

4. Þverá/Kjarrá  1.448 Lokatölur. 2021 – 1.377

5. Norðurá 1.352 Lokatölur. 2021 – 1.431

6. Hofsá 1.211 Lokatölur. 2021 – 601

7. Selá 1.164 Lokatölur. 2021 – 764

8. Langá  1.077 Lokatölur. 2021 – 832

9. Urriðafoss 983 *Nýjar tölur vantar

10. Laxá í Kjós 937 Vikuveiði 135 (1.066 lokatölur í fyrra)

Þessar tölur eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga angling.is og þar má finna upplýsingar um fjölmargar laxveiðiár.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira