Endurreisn laxins í Skjern gengur vel

Leiðsögumaðurinn Marc Skovby með fallegt eintak af laxi úr Skjern …
Leiðsögumaðurinn Marc Skovby með fallegt eintak af laxi úr Skjern í Danmörku. Þessi mældist rúmlega 90 sentímetrar. Ársleyfi í Skjern kostar nú tæpar 38 þúsund krónur. Ljósmynd/MS

Danmörk er alls ekki fyrsta landið sem kemur upp í huga veiðimanna þegar talið berst að laxveiði. En þar eru að gerast áhugaverðir hlutir í ánni Skjern sem lengi vel skipaði þann sess að vera besta laxveiðiá landsins. Eftir miklar hörmungar sem áin gekk í gegnum og var nánast orðin laxlaus í kringum 1990 var sett af stað ræktunar– og verndaráætlun sem miðaði að því að endurreisa vatnakerfið sem laxveiðisvæði.

Mjög jákvæð teikn eru á lofti um að vel sé að takast til. Skýrsla um fjölda laxa sem gengu í Skjern í fyrra var nýlega birt. Þar kemur í ljós mikil aukning á laxi sem gekk í ána í samanburði við fyrri ár. Samtals gengu 7.553 laxar í ána og er það mesti fjöldi sem nokkurn tíma hefur sést ganga í danska laxveiðiá.

Það sem er ekki síður ánægjuefni er að 62% af þessum fiskum voru úr náttúrulegri hrygningu í vatnakerfinu og 38% var úr sleppingum. Frá árinu 2010 hafa öll seiði sem sleppt er í ána verið veiðiuggaklippt svo þeir fiskar þekkjast auðveldlega úr.

Veiðimaður kastar á hyl á einu af efstu svæðum Skjern.
Veiðimaður kastar á hyl á einu af efstu svæðum Skjern. Ljósmynd/MS

Sambærileg rannsókn sem framkvæmd var árið 2019 sýndi að það ár gengu 5.897 laxar í Skjern. Hlutfallið milli villtra og slepptra fiska var þá nánast jafnt. 51% laxanna voru úr náttúrulegri hrygningu en 49% voru fiskar sem hafði verið sleppt sem gönguseiði.

Töldu laxinn útdauðan

Á níunda áratug síðustu aldar var talið að náttúrulegi laxastofninn í ánni væri útdauður með öllu. Við talningar á fiski í einni hliðaránni fannst eitt seiði sem talið var mögulegt að tilheyrði gamla laxastofninum. Sýni var tekið úr seiðinu og það borið saman við gömul hreistursýni sem til voru af villtumSkjern löxum. Í ljós kom að seiðið var af hinum villta stofni sem talinn var útdauður. Með aðstoð veiðimanna á svæðinu náðist eitt par af þessum dýrmæta fiski og varð það upphafið að ræktunarátakinu sem nú er að bera svo ríkulegan ávöxt. Þegar vísindamenn horfa til baka meta þeir stöðuna sem svo að um fimmtíu einstaklingar hafi verið eftir af villtaSkjern laxinum. Það má því með sanni segja að stofninum hafi verið bjargað á síðustu stundu.

Hér má svo sjá Skjern á neðri hlutanum. Hún er …
Hér má svo sjá Skjern á neðri hlutanum. Hún er hæg enda lítið um hæðabreytingar í hinni flötu Danmörku. Á allra neðsta svæðinu dreifir hún mikið úr sér. Ljósmynd/MS

Síðasta ár var líka metár þegar kemur að veiddum fiski. Alls var 1.912 löxum landað og 425 sjóbirtingum. Stærsti laxinn 2022, mældist 121 sentímetri og vigtaður 20,4 kíló. Það eru ríflega 40 pund.

Raunar geymir Skjern afskaplega stóra laxa. Sá stærsti sem veiðst hefur á stöng í ánni var 142 sentímetrar og veiddist árið 2016. Hann var ekki vigtaður heldur fékk hann frelsi eftir viðureignina.

Ársleyfi á 38.000 krónur

Fyrirkomulag og veiðistjórnun í Danmörku er með allt öðru sniði en gerist á Íslandi. Vatnasvæðinu er skipt upp í nokkur svæði og er veiðifélag um hvert svæði. Veiðifélögin selja dagsleyfi, vikupassa og ársleyfi. Marc Skovby sem er leiðsögumaður við Skjern sagði í samtali við Sporðaköst að ársleyfið kostaði um 240 evrur. Það lætur nærri að vera 38 þúsund krónur. „Við getum í raun ekki talað um fjölda stanga á dag. Við getum frekar miðað við fjölda veiðimanna sem veiðir ána á hverju ári. Sú tala hefur verið nokkuð stöðug síðustu ár, eða um 3,800 manns. Svo er svo misjafnt hvernig menn stunda þetta. Sumir veiða dagpart á meðan að aðrir sem búa í næsta nágrenni stunda ána mikið. En það er nokkuð öruggt að þetta er ódýrasta á í heimi sem geymir tuttugu kílóa fiska.“ 

Marc segir að grannt sé fylgst með allri veiði og stífar reglur gildi um hvað megi hirða mikið af fiski og við hvaða aðstæður. „Þannig var 1.539 löxum sleppt af heildarveiði upp á 1.912 laxa. Þetta er allt hluti af þeirri verndar– og ræktunaráætlun sem er í gangi.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira