Alls staðar sama sagan – færri laxar

Iain McLaren með fyrsta laxinn á Skotlandi 2024. Þessi veiddist …
Iain McLaren með fyrsta laxinn á Skotlandi 2024. Þessi veiddist 15. janúar og mældist 19 lbs eða 8,6 kíló. Honum var sleppt. Síðasta veiðitímabil í Skotlandi var það lélegasta frá því að skráningar hófust. Ljósmynd/Atlantic Salmon Fishing

Sífellt berast fleiri staðfestingar á hversu illa er komið fyrir laxastofnum í Atlantshafi. Opinberar tölur yfir veiði í Skotlandi á síðasta ári voru gefnar út í síðustu viku. Lélegasta ár frá upphafi er niðurstaðan. 32,477 laxar veiddust í skoskum ám í fyrra og hafa þeir ekki verið færri frá því að farið var að halda utan um þessar tölur, árið 1952.

Sveiflurnar eru miklar og ekki eru nema fjórtán ár frá því að metveiði var í Skotlandi. Veiðitímabilið 2010 er skrifað fyrir ríflega 111 þúsund löxum. Eins og fyrr segir var síðasta tímabil það lélegasta í 72 ár sem þessum tölum hefur verið haldið til haga af opinberum aðilum. Samdrátturinn milli 2022 og 2023 er upp á um 25% eða ríflega ellefu þúsund laxa.

Vaxandi umræða er um stöðu laxins í Bretlandi enda laxinn þar víða orðinn í útrýmingarhættu að mati sérfræðinga. Sífellt háværari raddir heyrast frá veiðimönnum og náttúruverndarsamtökum um að samhæfðum aðgerðum verði beitt til að takast á við þetta alvarlega vandamál. Þegar spurt er um hvað valdi þá eru svörin mörg og kannski eiga þau öll við eða mörg og hin að hluta. 

Ekki er heimilt að skjóta eða veiða sel við árósa og telja margir að fjölmargir selir beri mikla ábyrgð.

Skarfur og ýmsar tegundir fugla sem lifa á seiðum eru einnig nefndir til sögunnar. Heimilt er víða að skjóta nokkra fugla en þeir eru svo fáir að ekki sér högg á vatni. 

Mikla mengun má víða finna í ám í Bretlandi og hafa sprottið upp samtök sjálfboðaliða sem herja á þá sem valda menguninni.

Umfangsmikið sjókvíaeldi úti fyrir Skotlandi með tilheyrandi lúsavandamáli, strokulöxum og fleiri vandamálum tengdum þeim iðnaði.

Veðurfar hefur ekki verið hagstætt laxinum og hafa bæði hamfaraflóð á nokkrum árum og miklir þurrkar á sumrin mögulega sett stórt strik í reikninginn.

Aðrir benda á fiskiskipaflotann og telja hann hafa óhreina samvisku þegar kemur að konungi fiskanna eins og laxinn er gjarnan kallaður.

Þetta er því miður ekki ný saga eða einstök. Sporðaköst hafa fjallað um þessa stöðu í vetur og má í þessari frétt sjá tengdar greinar sem allar segja sömu sögu. Lax sem á heimkynni sín á Bretlandi og raunar víðar var í loks síðasta árs flokkaður sem tegund í hættu. Fór laxinn þar með í flokk með dýrum á borð við fjallagórillur, Síberíutígur og bláhval sem hefur öllum fækkað stórlega. 

Ísland er að því er virðist á sömu leið og laxveiðin hér á landi í fyrra var sú næst lélegasta frá því að skráningar hófust árið 1974. Lélegasta árið var 2019 og þessi tvö verstu ár eru bæði síðastliðin hálfan áratug.

Ráðstefna um stöðu laxins verður haldin í Vopnafirði þann 31. maí. Hún er haldin á vegum Six Rivers Iceland, sem er félagið sem heldur utan um laxveiðiár í eigu og leigu Jim Ratcliffe. Í fréttatilkynningu sem send var út vegna ráðstefnunnar er haft eftir Ratcliffe. „Tilvist Atlantshaflaxins er ógnað. Með því að leiða saman fremstu sérfræðinga heims á sviði verndunar sem vinna að sama marki ætlum við að deila þekkingu og úrræðum til að grípa inn í hnignun laxins áður en það verður um seinan.“

Þetta er í fjórða skipti sem ráðstefna af þessum toga er haldin á vegum SRI.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert