Morgunmatur Íslendinga í gegnum tíðina

Í kringum aldamótin 2000 var greint frá því í fréttum …
Í kringum aldamótin 2000 var greint frá því í fréttum að Íslendingar nytu þess vafasama heiðurs að eiga heimsmet í Cocoa Puffs-áti þar sem hver Íslendingur borðaði tvo pakka á ári. Jim Smart

Morgunverðurinn hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Slátur var jafnsjálfsagt í morgunmat í kringum 1900 og appelsínusafi síðar meir. Við höfum tekið tímabil þar sem allir borðuðu brauð í morgunmat, höfum átt heimsmet í kókópöffsáti, hafragrauturinn hefur komið og farið og í dag vekjum við alla í stigaganginum þegar við setjum blandarann af stað kl. 7 að morgni og tætum ávexti og chiafræ niður í þykkan drykk.

Heitur hafragrautur er í gegnum allt þetta svolítill sigurvegari. Á 19. öld fór að bera á mjölmeiri grautum, eftir því sem úrvalið jókst og alla 20. öldina hefur hafragrautur verið af og á einn vinsælasti morgunmaturinn. Og það merkilega er að hann átti ákveðna endurkomu. Eftir að hafa orðið svolítið undir um tíma hefur neysla á honum snaraukist síðustu árin og áratuginn en milli 2002 og 2011 jókst hún um rúmlega 100%. Á sama tíma fóru fleiri að taka lýsi þar sem 40% aukning var á lýsisinntöku.

Hafragrautur er vinsæll morgunverður hérlendis og hefur verið um árabil.
Hafragrautur er vinsæll morgunverður hérlendis og hefur verið um árabil. Kristinn Ingvarsson

Þórir Bergsson úr Tungusveit sagði um æskuheimili sitt um aldamótin 1900 að þeirra morgunmatur hefði verið dæmigerður fyrir mörg heimili á þeim tíma. Út í heitan hafragraut eða hræring, blöndu af skyri og hafragraut, var sett slátursneið og með því snætt rúgbrauð og kaffi, með miklum sykri. Og sykur hefði í raun verið það eina sem notað var óþarflega mikið á mörgum heimilum þess tíma. Morgunmaturinn var þá stór, engum datt í hug að sleppa honum eins og stór hluti landsmanna gerir í dag.

En brauðið átti eftir að sækja á að því er virðist í kringum 8. áratuginn. Vegfarendur sem lentu í spurningu dagsins árið 1979 sögðust nær allir borða brauð. Ristað brauð, nú eða bara fjórar heilhveitibrauðsneiðar með kæfu eins og einn þeirra svaraði.

Sagnfræðingurinn Hallgerður Gísladóttir sagði í viðtali árið 1987 að morgunverður nútímamannsins væri ávaxtasafi, ristuð brauðsneið og kaffibolli. Hún sagði að „einstaka“ héldu í gamlar hefðir með grautinn.

Margir láta sér nægja kaffibolla og kannski brauðsneið í morgunmat …
Margir láta sér nægja kaffibolla og kannski brauðsneið í morgunmat nú á dögum. Eggert Jóhannesson

Þetta skilaði sér svo svart á hvítu í könnun á mataræði Íslendinga árið 1990. Kaffisopi og brauðsneið var vinsælasti morgunverðurinn.

En súrmjólkin og ýmiss konar morgunkorn með mjólk var að sigla hraðbyri að brauðsneiðinni og kaffinu. Og fimm árum síðar var súrmjólkin komin fram úr samkvæmt neyslukönnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir Morgunblaðið og mjólkurvörurnar voru ótrúlega vinsælar. Rúm 90% landsmanna sögðust fá sér súrmjólk, ab-mjólk eða skyr í morgunmat. Langstærstur hluti fékk sér morgunkorn með þessum mjólkurdiski og Cheerios og kornflex var vinsælast.

Sjö sykurmolar eru í Cocoapuffs-skammtinum.
Sjö sykurmolar eru í Cocoapuffs-skammtinum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Þótt sykurneysla Íslendinga sé talin mikil eru merki um að sykurneysla að morgni hafi breyst. Við drekkum sykurinn frekar í formi gosdrykkja í dag en á 8. og fram eftir 9. áratugnum var settur sykur út á morgunkornið ef það var ekki sykrað, út á hafragrautinn, jafnvel bætt við í sykraða jógúrt. Í kringum aldamótin 2000 var greint frá því í fréttum að Íslendingar nytu þess vafasama heiðurs að eiga heimsmet í Cocoa Puffs-áti þar sem hver Íslendingur borðaði tvo pakka á ári.

Egg voru algeng til morgunverðar langt fram eftir síðustu öld. Steikt egg eða soðin en Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingar vakti athygli á því hversu sjaldséð egg voru orðin á morgunverðarborði Íslendinga í kringum 1990 samkvæmt könnun sem þá var gerð. Aðeins einn af hundraði borðaði steikt egg í morgunverð og enn færri soðin. Þess má þó geta að eggjaneysla hefur aukist síðustu árin.

Framandi ávextir fást nú víðast hvar og eru vinsælir i …
Framandi ávextir fást nú víðast hvar og eru vinsælir i morgunmat, þó sérstaklega í þeytinga. www.GreenKitchenStories.com

Með auknu úrvali ávaxta hafa þeir orðið stærri hluti af morgunverði okkar. En einstaka ávextir duttu þó inn á þeim árum þegar ávextir voru ekki jafnsjálfsagðir í morgunmat og þá oft sem hálfgert tískufyrirbrigði. Á 8. áratugnum varð hálft greip afar vinsælt og glas af gulrótarsafa. Á 9. áratugnum var hálfgerður áróður rekinn fyrir kívíneyslu. Sítrónuvatn hefur komið og farið og síðustu árin eru ávextir og grænmeti aðaluppistaðan í þeytingum, bústum og safadrykkjum úr pressum og blöndurum sem sífellt fleiri fá sér að morgni. Alls kyns fræjum, hnetum, möndlumjólk og hollustuhráefni er þá bætt út í.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert