Teriyaki-lax að hætti Gordon Ramsay

Gott er að bera laxinn fram með wok-steiktu grænmeti.
Gott er að bera laxinn fram með wok-steiktu grænmeti. Ljósmynd/GordonRamsay.com

Fiskmeti á huga ansi margra þessa dagana enda kominn tími á eitthvað allt annað en súkkulaði og steik. Fáir eru flinkari en meistari Gordon Ramsay en þessi uppskrift kemur beint úr smiðju hans og bragðast dásamlega.

Lax er frábær fiskur – bæði bragðgóður, þéttur og ríkur af ómega-fitusýrum og öðrum næringarefnum. Við mælum sannarlega með því að þið prófið þessa uppskrift en sjálfur leggur Ramsay til að fólk fái sér grænmeti með laxinum og ekki er verra ef það er steikt á wok-pönnu að austurlenskum hætti.

Teriyaki-lax að hætti Gordon Ramsay

 • 2 sm ferskt engifer, skorið í þunnar sneiðar
 • 2 hvítlauskgeirar, skornir í þunnar sneiðar
 • 3 msk. soyasósa
 • 2 msk. hlynsíróp
 • 1 msk. mirin (hrísgrjónavín) – til í flestum verslunum
 • Ólífuolía
 • 4 bitar af laxi (samtals um 500 gr.)
 • Sjávarsalt og ferskur malaður pipar

Aðferð

 1. Setjið engifer og hvítlauk í skál og blandið soyasósunni, sírópi, mirin og ögn af ólífuolíu með.
 2. Setjið laxinn á disk og kryddið með salti og pipar. Hellið sósunni yfir. Þekið með eldhúsfilmu og látið marinerast í kæli í um tvo klukkutíma ef kostur, þó ekki minna en 20 mínútur.
 3. Takið stóra pönnu og stillið á miðlungshita. Setjið olíu á pönnuna. Þegar pannan er orðin heit skal setja laxinn á pönnuna en láta roðið snúa niður. Eldið þannig í tvær mínútur. Hellið þá afgangskryddleginum ofan á og eldið í mínútu til viðbótar eða þar til laxinn er orðinn hálfeldaður (sést á áferðinni, óeldaður lax er eins og hann sé hálfgegnsær). Snúið bitunum við og steikið á hinni hliðinni í 3-4 mínútur. Passið upp á að laxinn sé vel baðaður í marineringu. Ef sósan er orðin of þykk má þynna hana með örlitlu vatni.
 4. Berið laxinn fram með góðu grænmeti og notið afgangsmarineringuna sem er eftir í pönnunni sem sósu.
mbl.is