Verðlaunakjúklingur að kóreskum hætti

Girnilegur og góður réttur sem mun sannarlega slá í gegn.
Girnilegur og góður réttur sem mun sannarlega slá í gegn. Ljósmynd/Food 52
Það er til merkilega mikið af góðum kjúklingauppskriftum enda er kjúklingur sérlega meðfærilegt og skemmtilegt hráefni. Að því sögðu eru sumar uppskriftir einfaldlega betri en flestar og þetta er ein af þeim. Fyrir þá sem til þekkja er matarvefurinn Food 52 mjög lifandi og skemmtilegur uppskriftarvefur þar sem reglulega er keppt um bestu uppskriftirnar og þessi dásemdarkjúklingur sem eldaður er að kóreskum hætti stóð uppi sem sigurvegari.
Hráefnin sem þarf í glassúrinn.
Hráefnin sem þarf í glassúrinn. Ljósmynd/Food 52
Verðlaunakjúklingur að kóreskum hætti
 • 1 kíló (rúmlega) af kjúklingavængjum. (Fjarlægið fremsta hlutann af vængjunum, þvoið og þerrið).
 • 2 1/2 dl Wondra-hveiti (svokallað „instant“-hveiti sem er búið að vinna betur en hefðbundið hveiti og því er það fíngerðara og hentar betur í sumar gerðir eldamennsku. En örvæntið ekki, venjulegt hveiti dugar vel).
 • 1 tsk. salt
 • 1 tsk. pipar
 • Grænmetisolía (eins og þarf til að djúpsteikja kjúklinginn)

Engifer- og soyaglassúr

 • 2 1/2 dl vatn
 • 2 1/2 dl þunnt skorið engifer (skrælið áður en þið skerið)
 • 3 msk. soya-sósa
 • 1 dl púðursykur
 • 60 ml hrísgrjónaedik (eða hvítt edik)
 • 2 msk. hunang eða kornsíróp
 • 1-2 msk. chili-flögur eða Gochujang (sem er kóreskt chili-mauk)
 • 1-2 msk. ristuð sesamfræ

Aðferð:

 1. Í stóra skál skal blanda saman hveiti, salti og pipar. Veltið vængjunum (sem eru þurrir og fínir) vel upp úr blöndunni þannig að þeir fái á sig fína hveitihúð.
 2. Hitið olíu í djúpsteikingarpotti eða á djúpri pönnu upp í 180 gráður. Steikið kjúklingavængina þegar olían er orðin heit í fimm mínútur eða svo eða þar til vængirnir eru eldaðir í gegn. Passið að elda ekki of marga í einu. Takið upp úr og hristið af allt umframhveiti og látið kólna.
 3. Í lítinn pott skal setja vatn, engifer, soya-sósu, edik og sykur. Látið suðuna koma upp og bætið þá við hunangi og chili-flögum (eða Gochujang). Látið malla í pottinum þar til búið er að sjóða sósuna niður um helming og hún minnir helst á hlynsíróp.
 4. Steikið kjúklingavængina aftur þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir eða í 5-8 mínútur. Setjið á grind eða eldhúspappír til að ná sem mestri umframolíu af. Dýfið í eða penslið með engifer- og soyaglassúrnum. Sáldrið sesamfræjunum yfir áður en þið berið fram.
Mikilvægt er að þerra vængina vel og taka fremsta hlutann ...
Mikilvægt er að þerra vængina vel og taka fremsta hlutann af. Ljósmynd/Food 52
Látið kjúklinginn kólna áður en hann er steiktur á ný.
Látið kjúklinginn kólna áður en hann er steiktur á ný. Ljósmynd/Food 52
Hér er verið að sjóða niður engifer- og soyaglassúrinn.
Hér er verið að sjóða niður engifer- og soyaglassúrinn. Ljósmynd/Food 52
mbl.is