Hinn fullkomni sunnudagsréttur

mbl.is/Nanna Rögnvaldardóttir

Nýjasta bók Nönnu Rögnvaldar, Pottur, panna og Nanna er mikill fjársjóður fyrir matgæðinga en þar eldar Nanna allt í steypujárnspottunum sínum auk þess að kenna réttu handbrögðin við meðhöndlun steypujárns. 

Sjá frétt mbl.is: Leynitrix Nönnu: Meðferð og viðhald á steypujárni

Sjá frétt mbl.is: Ný bók og lambabógur að hætti Nönnu

Um þessa uppskrift segir Nanna sjálf:

„Það verður eiginlega að vera uppskrift að boeuf bourguignon í svona bók, er það ekki? Gallinn er að ég hef lesið og heyrt svo oft að það þurfi að vera ekta, maður eigi ekki að stytta sér leið ... og ég er einmitt að stytta mér fáeinar leiðir hér. Til dæmis notaði ég ekki perlulauk af því að ég nenni ómögulega að afhýða alla þessa litlu lauka og heldur ekki litlu sveppina sem eiga að vera af því að ég átti bara stóra sveppi. Og ég læt þetta sjóða með allan tímann. Svo að ég ætla bara að kalla þetta rauðvíns-nautapottrétt svo ég sé nú örugglega ekki að fara með fleipur.


Uppskriftirnar eru samt óteljandi og hægt að gera þetta á ótal vegu. Ég vil til dæmis hafa rauðvínssósuna mjög bragðmikla en frekar lítið af henni svo að ég byrja á að gera rauðvínsgrunn – sjóða vínið niður með grænmeti og kryddjurtum og láta kjötið svo malla í henni. Mér finnst þetta gefa bragðmeiri sósu en ef víninu er hellt beint í pottinn. En svo bæti ég við ögn af vatni og nautakrafti til að það verði einhver sósa ...


Hér hentar engan veginn að nota meyrt kjöt og best er að það sé vel fitusprengt. Bógvöðvi, skankar, eitthvað slíkt. Tilbúið nautagúllas er yfirleitt of smátt skorið, þrátt fyrir hæga eldun verða bitarnir þurrir. Best er að þeir séu 4–5 cm á kant."

Nýjasta bók Nönnu heitir Pottur, panna og Nanna.
Nýjasta bók Nönnu heitir Pottur, panna og Nanna. mbl.is/Forlagið

Rauðvíns-nautapottréttur
Fyrir 6

  • 1 flaska rauðvín, þarf ekki að vera búrgundarvín
  • 4–5 gulrætur
  • 3 laukar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2–3 lárviðarlauf
  • nokkrar timjangreinar
  • 1,2 kg nautakjöt
  • 4 msk hveiti
  • pipar
  • salt
  • 100 g beikon
  • 400 g sveppir
  • 2 msk olía
  • 1 msk koníak (má sleppa)
  • 200 ml vatn
  • 1 tsk nautakraftur

Aðferð:

  1. Helltu víninu í pott. Skerðu eina gulrót og einn lauk smátt og hvítlaukinn mjög smátt og settu út í, ásamt lárviðarlaufi og timjani. Hitaðu að suðu og láttu sjóða niður u.þ.b. um helming. Taktu svo pottinn af hitanum og láttu standa.
  2. Hitaðu ofninn í 150°C. Skerðu kjötið í bita, 4–5 cm á kant. Veltu þeim upp úr hveiti krydduðu með pipar og salti. Skerðu beikonið í bita og sveppina í sneiðar eða bita. Skerðu afganginn af gulrótunum og lauknum í bita. Hitaðu 1 msk af olíu í steypujárnspotti og brúnaðu helminginn af kjötinu við góðan hita. Taktu það upp með gataspaða og brúnaðu hinn helminginn í afganginum af olíunni. Taktu það líka upp og settu til hliðar.
  3. Brúnaðu beikonbitana í nokkrar mínútur, bættu svo sveppunum í pottinn og síðan gulrótum og lauk og láttu krauma í nokkrar mínútur. Helltu koníakinu yfir, sé það notað, og láttu það gufa alveg upp. Settu kjötið aftur í pottinn, síaðu rauðvínslöginn yfir, bættu við vatni og nautakrafti og hitaðu að suðu.
  4. Settu lok á pottinn, settu hann í ofninn og láttu réttinn malla í 2½–3 klst., eða þar til kjötið er mjög meyrt og sósan þykk og bragðmikil. Líttu einu sinni eða tvisvar í pottinn þegar líður á steikingartímann og bættu við svolitlu vatni ef þarf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert