Sælkeraborgin Brighton heillar alla

Pike and pine er ekki síður upplifun fyrir innanhúsunnendur og …
Pike and pine er ekki síður upplifun fyrir innanhúsunnendur og þar rennru rósavínið glatt. mbl.is/

Matarvefur Mbl.is ferðast mikið vegna matarástar sinnar og já, okkur leiðist kannski heldur ekki að kíkja í eina eða tvær búðir. Fyrir valinu í þetta sinn var það Brighton, fallegur strandbær í um 35 mínútna akstursfjarlægð frá Gatwick.

Bærinn er ákaflega sjarmerandi, þar er að finna einstaklega gott úrval af veitingahúsum og verslunum og verðlagið er ljúft. Ekki er óalgengt að borga um 10-20 pund fyrir háklassa aðalrétt og gott léttvínsglas er á 6 pund. Svo má ekki gleyma því að Happy Hour er vel þekkt hugtak í Bretlandi.

Brighton er bær með mikla sögu. Winston Churchill hélt mikið upp á Brighton. Í mikilli rigningardembu rambaði ég inn á hótel í niðurníðslu við sjávarsíðuna og tyllti í mér í gamlan Chesterfield sófa fyrir framan arininn og pantaði rauðvínsglas. Ég tók síðar eftir því að stólinn var merktur Churchill en hann fór gjarnan með sína eigin stóla á uppáhalds hótelin sín.

Í bænum er að finna verslunarmiðstöð með úrvali verslana en miðbærinn er mjög þægilegur og liggur nálægt ströndinni. Fyrir neðan verslunarmiðstöðina er að finna þröngar verslunargötur með fallegum verslunum og sjarmerandi börum, kaffihúsum, sérvöruverslunum og veitingahúsum.

Meðal verslana sem finna má í bænum eru dásamlegar súkkulaðibúðir og skemmtilegar heimilisverslanir eins og Made in England og Steamer trading cook shop sem er vinsæll áningarstaður þeirra sem elska eldhúsvöruverslanir.

Fyrir gourme-unnendur er algjört æði að versla gúmmelaði í M&S og skoða samloku- og salatúrvalið í Prét a Manger. Ekki er svo verra að skoða Tom Dixon og aðra fagra muni í Heal‘s og finna ilminn af guðdómlegum ilmkertunum þar. Einn af mínum uppáhalds er gin og fersk minta. Ilmar mun betur en það hljómar. Ekki má skilja menningararfinn eftir en eitt af því sem gaman er að skoða er The Royal Pavilion sem var partýhöll í eigu ungs bresks prins sem kom gjarnan þangað í fríum til að skemmta sér.

En tölum um mat! Veitingahúsin í Brighton eru mörg virkilega góð og þar má finna nánast hvaða matargerð sem er. Grænmetisstaðirnir í Brighton eru á heimsmælikvarða og jafnvel harðar kjötætur stynja á stöðum líkt og Food for Friends og Terre à Terre.

Food for Friends
The Lanes 17 Prince Albert Street, Brighton BN1 1HF, England

Grænmetismatur sem breytir sýn þinni á lífið. Fylltir portobello sveppir með osti og unaðsheitum, djúpsteiktur halloumi-ostur, sætkartöflur franskar, syndsamleg salöt og góð léttvín. Það er alltaf fullt svo það er vissara að bóka borð. 

Portobellusveppir fylltur með ostagúmmelaði borin fram með aspas og kartöflugratíni …
Portobellusveppir fylltur með ostagúmmelaði borin fram með aspas og kartöflugratíni á Food for friends. mbl.is/TM

Indian Summer
70 East Street, Brighton BN1 1HQ, England

Einstaklega góður indverskur staður. Bragð matarins er ævintýralegt, mun flóknara en á hefðbundnum veitingastöðum og í raun er hver réttur ævintýri. Þjónustan er yfirleitt áberandi góð og persónuleg. Milli forréttar og aðalréttar er yfirleitt boðið upp á mangó-sorbet í agnar-smárri krukku til að hreinsa bragðlaukana. Ákaflega gott og smart. Ég mæli með Hariyali Murgh og Tandoori Salmon í forrétt og Indian Summer Thali í aðalrétt.

Súkkulaðiunaður á Terre á terre.
Súkkulaðiunaður á Terre á terre. mbl.is/TM

Terre à Terre
71 East Street, Brighton BN1 1HQ, England

Þessi staður er líka grænmetisstaður en ákaflega góður. Maðurinn minn er mikill kjötmaður en við fórum engu að síður tvisvar á þennan stað. Ekki bara er þjónustan góð, léttvínin framúrskarandi og umhverfið skemmtilegt heldur er maturinn ákaflega góður og súkkulaðieftirrétturinn fékk mig til að tárast. Og ostarnir! Ja hérna hér.

Riddle and Finns
12B Meeting House Lane, Brighton BN1 1HB, England

Skemmtilegur lítill sjávarréttarstaður. Staðurinn er bæði í litlu þröngu götunum sem kallast The Lanes og við sjávarsíðuna en sá staður er mun stærri. Það getur verið erfitt að fá borð en stemningin er skemmtileg og gaman að fá sér freyðivínsglas og gott fiskmeti á staðnum. Við fengum okkur nokkra fiskrétti og saltfiskbollur sem voru ákaflega góður. Þessi staður hentar vel þeim sem þora í framandi fiskmeti. Staðurinn tekur ekki við borðapöntunum.

Sugardough bakery
5 Victoria Terrace, Hove BN3 2WB, England

Sjarmerandi bakarí sem sérhæfir sig í girnilegu morgunverðargúmmelaði, bökum, hornum, brauði, tertum og nánast öllu sem hugurinn girnist þrátt fyrir smæð. Þegar við fjölskyldan dvöldum í Brighton um jólin röltum við pabbi oft í bakaríið á morgnana og fengum okkur gott kaffi. Kipptum svo með syndsamlegum morgunverði heim. Bakaríið er á tveimur stöðum, í miðbænum við hliðina á The Breakfast Club og nær strandgötunni nær Hove en ég fór iðulega í það bakarí. The Telegraph hefur útnefnt þetta bakarí eitt það besta í Bretlandi.

The Breakfast Club
16 Market St, Brighton BN1 1HH, England

The Breakfast Club er ákaflega skemmtilegur morgunverðarstaður sem virkar allan daginn. Þar er yfirleitt biðröð eftir borði á háannatíma. Maturinn er á góðu verði og skemmtileg 80‘s stemming er á staðnum. Maturinn á staðnum er djúsí morgunverðarréttir í bland við hamborgara, pönnukökur, samlokur, vefjur, kokteila og barnasl.

La Cave à Fromage
34-35 Western Road, Hove, East Sussex, BN3 1AF, England

Skemmtileg ostabúð og bar sem býður upp á yfir 200 tegundir af osti. Þessi staður er margverðlaunaður og ekki síst fyrir hversu vel að sér starfsfólkið er um allt er viðkemur ostum.

Pike and Pine
1d St James Street, Brighton, England

Virkilega smart staður með frumlegum og ferskum matseðli. Rósavínið á staðnum er virkilega gott en það er mjög algengt að Brightonbúar drekki rósavín með salötum og léttum mat. Fyrir einskæra heppni stakk ég mér þarna inn í léttan hádegisverð með nokkur blöð og lenti í brjálæðri rigningu svo ég sat föst í tvo klukkutíma og „neyddist“ til að panta mér ostaköku og annað glas. Guðdómlega afslappandi og notalegt.

Þetta er bara brot af þeim stórfenglegu veitingahúsum sem finna má í hinu sögufræga og sjarmerandi Brighton. Ferðir sem þessar þurfa ekki að vera dýrar, ég fékk flug fyrir innan við 20 þúsund til London Gatwick og við leigðum okkur nokkrar saman íbúð á airbnb.com sem kostaði um 8 þúsund á manninn nóttin. Ég pantaði svo leigubíl sem sótti okkur út á völl (British Airport Transfers) og keyrði okkur beint heim að dyrum á leiguíbúðinni en það kostaði 12.000 krónur hvora leið fyrir fimm.

Slakað á í marasmartheitunum á Pike and Pine.
Slakað á í marasmartheitunum á Pike and Pine. mbl.is/TM
Brigton er ákaflega sjarmerandi staður.
Brigton er ákaflega sjarmerandi staður. mbl.is/TM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert