Hreinsar blóðið með þessum drykk

mbl.is/Albert Eiríksson

Það er eflaust bráðnauðsynlegt að hreinsa blóðið í sér reglulega, ekki síst eftir magnað marengskökuát eins og Albert Eiríksson lennti í á dögunum. Albert er þessa dagana að taka mataræðið í gegn með aðstoð næringarfræðings og þar kemur ýmislegt á óvart. Til dæmis borðar hann mun minni fisk en hann taldi og drekkur töluvert af kaffi.

Næringarfræðingurinn Beta Reynis ráðlagði honum að byrja að taka inn lýsi og drekka blóðhreinsandi drykk á hverjum degi. Ekki leist Alberti á blikuna þegar hann sá innihaldið en ákvað að láta slag standa og bretti upp ermarnar. Hann segist fyrst hafa notað nokkur korn af Cayenne pipar en nú sé hann kominn upp í þriðjung úr teskeið. Drykkurinn sé mjög hressandi og hvetur hann lesendur Matarvefsins til að prófa.

Blóðhreinsandi og mjög hressandi drykkur

  • Volgt vatn, ca 2 dl
  • 1/3 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1/2 – 1 tsk ólífuolía

Setjið í glas, hrærið í með teskeið og drekki í einum sopa

mbl.is