Kaka sem gerir allt vitlaust

Litagleðin er mikil.
Litagleðin er mikil. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Við þreytumst seint á kökugerð Berglindar Hreiðarsdóttur enda er hún sannkallaður kyndilberi kökugerðar hér á landi – að minnsta kosti í áhugamannadeildinni. 

Berglind bakaði á dögunum þessa köku sem verður að segjast eins og er að er með „flippaðra“ móti enda skreytt með flipper-höfrungum. Sem er skemmtilegur orðaleikur.

Hér gefur að líta útlistun Berglindar á aðferðarfræðinni og við vonum sannarlega að lesendur Matarvefjarins taki sér þetta til fyrirmyndiar, flippi dáldið vel og sendi okkur myndir eða taggi okkur á samfélagsmiðlum.

Þetta ætti að gleðja flesta.
Þetta ætti að gleðja flesta. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

En við gefum Berglindi orðið:

„Við erum líka nokkrar mömmur sem höfum tekið okkur saman undanfarin ár og boðið öllum stelpunum í bekknum hjá miðjunni minni í öskudagspartý að loknu nammirölti. Þá koma allar stelpurnar í bekknum saman, fá heimabakaða pizzu ala Lillý, köku og gotterí og horfa síðan á mynd.

Ég hef tekið að mér kökugerð sem kemur kannski ekki á óvart og í dag ákvað ég að prófa eitthvað skemmtilega flippað. Þar sem ég ELSKA Flipper nammi ákvað ég að búa til eitthvað einfalt en óhefðbundið og þetta varð útkoman, svona frábærlega flippuð Flipperkaka!

Kakan er 1 x Betty Crocker Devils Food Cake mix, skipt í 2 x 20 cm form. Súkkulaðismjörkrem er sett á milli og vanillusmjörkrem notað í skreytinguna að utan (hvítt grunnlag og svo alls konar litir dregnir saman yfir grunnlagið).

Ég setti stóru Flipperana á grillprik sem ég síðan braut af og stakk í kökuna. Stelpurnar eru 12 í bekknum og það rétt hafðist að koma 12 Flipperum hringinn. Síðan setti ég minni Flippera hringinn í kringum kökuna og sykurperlu á milli þeirra líkt og þeir væru að leika með bolta.

Já krakkar mínir, það þarf svo sannarlega ekki alltaf að vera flókið, ekki einn einasti sprautustútur notaður og kremið má vera skemmtilega ójafnt og einhvern veginn svo lengi sem það er nógu marglitað.“

Berglind elskar flipper-fiska.
Berglind elskar flipper-fiska. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert