Nærandi og hreinsandi gulrótarsúpa

Súpan inniheldur bráðhollar gulrætur og hreinsandi túrmerik. Gulrætur innihalda mikið …
Súpan inniheldur bráðhollar gulrætur og hreinsandi túrmerik. Gulrætur innihalda mikið af A-vítamíni sem meðal annars er mikilvægt fyrir sjónina, húðina og slímhimnur líkamans. Auk þess er í gulrótum B- og C-vítamín ásamt mikilvægum steinefnum eins og kalíum, kalki, járni og fosfór. mbl.is/Íslenskt.is

Eldhúsfrömuðurinn Sigurveig Káradóttir á heiðurinn að þessari uppskrift sem fengin er frá islenskt.is sem er skemmtileg síða tileinkuð íslensku grænmeti en þar má finna mikinn og góðan fróðleik um grænmetið okkar góða. 

P.s. Vissir þú að gulrætur geymast best við kjörhitastig 0 - 2 gráður?

Gulrótasúpa Sigurveigar
Fyrir 3-4

Þessi er bragðmikil og nærandi. Ef gulræturnar eru brakandi ferskar, er algjör óþarfi að skræla þær og vatn er nóg. Það má einfaldlega bæta við grænmetiskrafti síðar ef þurfa þykir.

2-3 msk. ólífuolía
2-3 msk. smjör
200 gr. laukur
100 gr. sellerí
50 ml hvítvínsedik
1 kg gulrætur
2 msk. sykur (má sleppa)
1-2 tsk. turmerik
2-3 hvítlauksrif
1 - 1 1/2 lítri vatn/grænmetiskraftur
3-4 lárviðarlauf
1 búnt fersk steinselja
Sjávarsalt
Hvítur pipar

Laukur og sellerí skorið fremur smátt og sett í pott ásamt ólífuolíu og ögn af sjávarsalti.
Leyft að glærast um stund. Á meðan eru gulræturnar skornar fremur smátt og þeim síðan bætt í pottinn ásamt smjörinu og sykri og turmeriki.

Leyft að brúnast aðeins í pottinum og taka smá lit áður en smátt söxuðum hvítlauknum er bætt saman við.

Því næst er hvítvínsedikinu hellt í pottinn og leyft að gufa aðeins upp áður en kraftinum er bætt saman við. Látið malla á meðalhita, þar til grænmetið er fullsoðið.

Þá er steinseljunni bætt saman við, lárviðarlaufin veidd úr og súpan maukuð. Sett aftur í pottinn, krydduð til og hituð að nýju.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert