Matur sem þú ættir aldrei að frysta

Margir geyma opnaða kaffipoka í frysti.
Margir geyma opnaða kaffipoka í frysti.

Frystikistur breyttu lífi okkar til hins betra og því hvernig við borðum og verslum inn. Hins vegar eru ákveðnar fæðutegundir sem skyldi aldrei frysta og við erum nokkuð viss um að það eru nokkur atriði á þessum lista sem eiga eftir að koma ykkur á óvart.

Kaffi: Margir geyma malað kaffi í frystinum og halda að þeir séu að gera hárrétt. Hins vegar fer það illa með kaffi að vera sífellt að þiðna og frjósa á ný sem skemmir náttúrulega eiginleika kaffisins og dregur úr bragðgæðum. Hins vegar er í góðu lagi að geyma óopnaðan kaffipakka í frysti í allt að mánuð.

Djúpsteiktur matur: Því miður er það alls ekki snjöll hugmynd að frysta djúpsteiktan mat því allur stökkleiki hverfur eins og dögg fyrir sólu og maturinn verður blautur og einstaklega ólystugur. Því miður.

Mjólk: Þegar mjólk er fryst og þiðin getur hún orðið kekkjótt sem mörgum þykir alls ekki gott. Hins vegar hentar hún vel til matseldar en ætíð skyldi þýða mjólk í kæli og gefa henni góðan tíma.

Egg: Egg þenjast úr í frysti og geta sprungið með ákaflega subbulegum afleiðingum. Það sama gildir um soðin egg og reyndar flestan mat sem unnin er úr eggjum eins og majónes og marengs. Innvols eggjana má þó frysta.

Avókadó: Ekki láta þér detta í hug að fyrsta avókadó þar sem það missir alla sína silkimjúku áferð við frystingu.

Ostur: Lekkera hefðarosta á borð við camembert og félaga skyldi ekki frysta þar sem það hefur áhrif á áferð þeirra. Hins vegar hefur frostið minni áhrif á harða osta og því ætti að vera í lagi að frysta þá. Brauðosta má til dæmis vel frysta.

Ferskar kryddjurtir: Því miður helst ferskleikinn ekki eftir að jurtin hefur verið fryst. Þess í stað verður hún ansi ólystug að sjá. Helsta ráðið er að frysta kryddjurtir í olíu í klakabakka og henda þeim beint út í matinn sem verið er að elda. 

Sósur: Heldri manna sósur sem innihalda sósujafnara eða hveiti þola ekki frost og skilja þegar þær þiðna. Afskaplega sorglegt.

Tómatsósa: Þolir heldur ekki frost og skilur sig.

Ferskt salat: Verður afskaplega slappt og dapurlegt. Missir einnig bragðgæðin.

Jógúrt: Mjólkurvörur á borð við jógúrt þola ekki frost og hlaupa í kekki þegar þær þiðna.

Kartöflur: Sterkjan í kartöflunum þolir illa frost og kartöflurnar (og annað grænmeti sem inniheldur sterkju) verða grófar og ekki eins og við eigum að venjast.

Dósamatur: Dósamatur getur innihaldið mikinn vökva sem þenst út í frosti sem getur valdið því að dósin springur. Gosdósir eru dæmi um dósir sem hafa stútað mörgum góðum frystihólfum svo erfitt er að þrífa þau og megi jafnvel segja að þau verði aldrei eins. 
Athugið að innvols sumra dósa má þó vissulega frysta en þar sem líftími dósamats er mjög langur er tilgangurinn væntanlega enginn.

Þiðnaður matur: Matur sem búið er að frysta og afþýða skyldi ekki frysta á ný. Ástæðan? Bakteríur geta hafa hreiðrað um sig þegar þær þiðnuðu og því er ekki öruggt að frysta þær á ný. Þetta á sérstaklega við um kjöt og fisk.

Krydd: Hér fer bragðið norður og niður þannig að eigi skyldi frysta.

Heimild: Delish

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert