Hvernig er best að þrífa rúmdýnuna?

mbl.is/Thinkstockphotos

Dýnur eru móttökustöðvar dauðra húðfrumna, svita, bletta, rykmaura og ótal dásamlegra hluta. Þrátt fyrir lök, sængurföt og kodda þarf að huga reglulega að því sem undir er og þú sefur á hverja nótt. Auðvelt er að fylgja eftirfarandi skrefum, þá geturðu verið viss um að þú hvílir ekki á mauraþúfu.

Ryksuga

Fjarlægðu lakið (og dýnuhlífina) og farðu vel yfir með ryksuguhausnum. Þannig losnarðu við mylsnu, hár og ryk sem safnast upp með tímanum.

Blettahreinsun

Framkvæmdin fer eftir ástandi dýnunnar og hvers konar bletti þú ert að glíma við. Ef þú ert ekki að sötra rauðvín eða kaffi uppi í rúmi eru blettirnir sennilega próteinseðlis, líkamsvessar, eðlilegir hlutir svo sem blóð, sviti, þvag og fleira. Ef blettirnir eru gamlir er erfiðara að eiga við þá.

Nokkrir möguleikar:

  • Blandaðu saman vetnisperoxíði, uppþvottalegi og matarsóda, hristu þetta saman í spreibrúsa og úðaðu yfir blettina. Strjúktu svo yfir þá eða nuddaðu með hreinum klút.
  • Þvoðu blettina með umhverfisvænu hreinsiefni sem vinnur á blettum og lykt.
  • Hrærðu saman sítrónusafa og salti, dreifðu blöndunni yfir blettina og láttu bíða í 30-60 mínútur. Nuddaðu saltið af með hreinum klút.

Frískað upp á lyktina

Dreifðu þunnu lagi af matarsóda á yfrborð dýnunnar og láttu standa í nokkrar klukkustundir. Sódinn dregur í sig rakann úr blettunum og á eftir angar dýnan af ferskleika. Ryksugaðu vel og vandlega til að fjarlægja duftið.

Dýnan viðruð

Fátt er árangursríkara en að viðra dýnuna af og til úti í sólskini. Kannski hafa ekki allir tækifæri til að drösla dýnunni út undir bert loft, en þetta er ein albesta leiðin til að útrýma bakteríum og rúmið þitt ilmar af sól á eftir.

Dýnuhlíf

Ef þú ert ekki með hlífðarver utan um dýnuna þína er gott að fjárfesta í einu slíku. Það veitir góða vörn gegn óhreinindum og auðvelt að henda því af og til í þvottavélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert