Regnbogahraunbitar sem æra bragðlaukana

Hægt er að velja hvað sem hugann girnist, og láta …
Hægt er að velja hvað sem hugann girnist, og láta ímyndunaraflið ráða ferð við val á kruðeríi til að hrauna á súkkulaðið. mbl.is/SweetPaul

Fátt jafnast á við góða heimalagaða hraunbita. Þessi uppskrift er fengin úr uppskriftabókinni Rainbow Bakes eftir Mima Sinclair og er hægt að nálgast þá snilldar bók HÉR. Það má vel skipta sykurpúðum, ískexi, smákökum og M&M kúlum út fyrir eftirlætis sælgætið eða hvað sem hugann girnist helst, og þá er um að gera að láta þá ímyndunaraflið ráða ferðinni við val á kruðeríi til að hrauna á súkkulaðið. Athugið að þessi uppskrift er frekar stór og dugir fyrir um það bil 16 manns og er því fyrirtak fyrir fjölmenna veislu, nú eða þá ef menn eru sérstaklega svangir.

Regnbogahraunbitar

 • 230 gr. ósaltað smjör
 • 590 gr. dökkt súkkulaði, gróflega brytjað
 • 3 msk. síróp
 • 155 gr. smákökur
 • 85 gr. ískex
 • 155 gr. sykurpúðar
 • 140 gr. M&M kúlur
 • handfylli kökuskraut

 Aðferð 

 1. Klæðið eldfast mót að innan með bökunarpappír, gott er að miða við mót sem er um það bil 20 sentímetrar að stærð.
 2. Bræðið smjör, súkkulaði og síróp í potti yfir lágum hita og hrærið þar til blandan er slétt og laus við kekki. Takið pottinn af hitanum og leyfið blöndunni að kólna.
 3. Hellið helmingi súkkulaðiblöndunnar í eldfasta mótið, yfir bökunarpappírinn. Dreifið svo helmingi af smákökum, sykurpúðum, ískexi og M&M kúlum yfir súkkulaðið í botninum.
 4. Hellið því næst helmingnum af því súkkulaði sem eftir er yfir það og hristið mótið ofurlítið til að hjálpa súkkulaðinu að renna upp í sprungur og glufur.
 5. Takið þá handfylli af smákökum, sykurpúðum, ískexi og M&M kúlum og dreifið yfir efsta súkkulaðilagið, en gætið þess að skilja aðra handfylli eftir fyrir efsta lagið. Hristið mótið aftur varlega til að láta súkkulaðið renna í vel í holur.
 6. Að lokum skal dreifa síðustu handfyllinni af því kruðeríi sem eftir er af kökum, M&M kúlum, ískexi og sykurpúðum yfir herlegheitin og hrista duglega af kökuskrauti yfir. Setjið formið í kæli og leyfið því að kólna vel, eða í að minnsta kosti 4 klukkustundir, skerið svo í bita og berið fram.
mbl.is