5 skotheld húsráð

Það er fátt sem jafnast á við gott húsráð til …
Það er fátt sem jafnast á við gott húsráð til að létta okkur lífið við hreingerningar. mbl.is/SashaFavorov

Allt sem einfaldar lífið bætir og kætir, og fátt kætir okkur hér á Matarvefnum eins og gott húsráð. Hér má finna nokkur skotheld ráð sem eru til þess gerð að létta okkur lífið við þrifin.

Þrífðu svampinn
Svampar getur verið gróðrarstíur fyrir bakteríur, sérstaklega ef þeir eru geymdir í vaskinum. Við reynum að sjálfsögðu að hugsa um umhverfið og viljum því ekki henda og kaupa nýja svampa í gríð og erg, plánetunni er enginn greiði gerður með því. Það er mjög auðvelt að þrífa svamp og drepa úr honum bakteríur. Stingið honum einfaldlega inn í örbylgjuofninn í eina mínútu á hæstu stillingu. En í guðanna bænum bíðið með að snerta hann í nokkrar mínútur á eftir þar sem hann getur verið alveg svakalega heitur. 

Gamla dagblaðatrixið 

Þetta er gamalt og gott ráð sem verður aldrei þreytt, en fyrir þá sem ekki vita af þessu er eins og nýr heimur opnist við að sjá þetta gert í fyrsta sinn. Hver kannast ekki við að taka jóla- eða vorhreingerninguna og eyða óralöngum tíma í að skrúbba ryk, nú eða þykkt fitulag ofan af eldhúsinnréttingunni? Þá koma dagblöðin til bjargar. Breiðið þau ofan á innréttingarnar og þau sjá um að grípa ryk og fitu, svo þegar blessað vorið kemur þarf lítið annað en að skipta gömlu skítugu dagblöðunum út fyrir ný.

Að ná blóðbletti úr flík
Það er ekkert gaman að fá blóðnasir, hvað þá þegar kona er í nýstraujaðri hvítri skyrtu og á leið í matarboð. En það er engin ástæða til að leggjast á hliðina yfir einum blóðbletti. Látið einfaldlega kalt vatn renna á blettinn, stráið salti yfir og látið liggja yfir nótt. Skyrtan í þvottavélina daginn eftir og málið er dautt – og blettalaust.

Fatarúlluráðið
Fatarúlla er fyrirtaks rykbani. Í stað þess að nudda rykinu fram og tilbaka á lampaskermum og sófabökum með gagnslausri tusku er gott að grípa til fatarúllunnar. Rúllið snögglega yfir efnisflötinn og rykið hverfur eins og dögg fyrir sólu.
 

Flýttu fyrir þurrkaranum
Hver kannast ekki við að standa stiklandi fyrir framan þurrkarann og telja niður mínúturnar þar til hann er búinn því í honum er eitthvað algjörlega nauðsynlegt til að bregða sér í? Ef þér liggur lífið á má flýta fyrir þurrkunarferlinu með því að henda einu þurru handklæði með í þurrkarann. Handklæðið drekkur í sig rakann svo flíkin sem beðið er eftir verður þurr mun fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert