Kókosbollusukk besta sakbitna sælan

Albert byrjaði með vefsíðu sína Albert eldar sem stað fyrir …
Albert byrjaði með vefsíðu sína Albert eldar sem stað fyrir allar uppáhaldsuppskriftirnar, en vefsíðan endaði í einu vinsælasta matarbloggi landsins. mbl.is/AE

Albert Eiríksson er með þekktari matgæðingum landsins, en ef hann er ekki að elda mat þá er hann að hugsa um mat, að eigin sögn. Hann hefur einnig mikið dálæti á að halda veislur en hann heldur einnig fyrirlestra um borðsiði og kurteisi ásamt því að halda matreiðslunámskeið enda er hann menntaður kokkur.

Albert byrjaði með vefsíðu sína Albert eldar sem stað til að geyma allar uppáhaldsuppskriftirnar, en vefsíðan endaði í einu vinsælasta matarbloggi landsins. Albert er að vinna á sveitahóteli í Breiðdal í sumar þar sem hann gleður bragðlauka gesta á degi hverjum. Hann gaf sér þó tíma til að leggja frá sér sleifina og svara nokkrum spurningum fyrir okkur.

Kaffi eða te: Ég drekk mun meira af kaffi, en síðdegiste og fínleg gúrkusamloka er náttúrulega æði.

Hvað borðaðir þú síðast? Nýveiddan silung. Honum var ekki velt upp úr neinu og aðeins steiktur á roðhliðinni, svo að hún varð mjög stökk. Með silungnum voru rósmarínkartöflur og salat úr maís, grískri jógúrt, estragon og haugarfa. 

Hin fullkomna máltíð: Í augnablikinu er það hægeldaður lambahryggur, eldaður a.m.k. í 7 klst., á 35°C. Síðustu mínúturnar er hitinn hækkaður verulega til að fá yfirborðið stökkt.

Hvað borðar þú alls ekki? Sagógrjónagraut og makkarónusúpu. Einhvern veginn finnst mér ég hafa fengið slím upp í mig. Kannski gæti ég pínt mig til að venjast því, en ég kem mér fimlega undan því að borða þetta tvennt.

Avókadó á ristað brauð eða lummur með sírópi? Klárlega sírópið af því að ég er sykurgrís, en auðvitað bara spari og veit vel að við eigum að gera allt til að draga úr sykuráti.

Súpa eða salat? Trúlega salat, fátt er betra og hollara en litfagurt sumarlegt salat. Hver getur samt neitað sér um lauflétta gúrkusúpu að sumri, eða ilmandi bouillabaisse á köldu vetrarkvöldi?

Uppáhaldsveitingastaðurinn: Svei mér þá ef ég á mér ekki nýjan uppáhaldsveitingastað í hverjum mánuði. Verð að nefna þrjá staði: Apótekið, Nostra og Essensia.

Besta kaffihúsið: Það er eins með kaffihús og veitingastaði, ekkert eitt situr alltaf í efsta sæti, en við Bergþór förum oft á kaffihús og höldum það sem við köllum „kaffihúsavinnufundi“. Oftast förum við á Kaffitár í Bankastræti eða Te og kaffi neðst á Laugaveginum, af því að þau eru næst okkur, en það er auðvitað líka geggjað kaffi á Roasters uppi á Kárastíg og á Pallett í Hafnarfirði.

Salt eða sætt? Ég er svo mikill kökukarl og baka sætindi oft í viku. Það er víst ekki til fyrirmyndar, en jafnvægi milli sætu og salts er mikilvægt í matargerð.

Fiskur eða kjöt? Fiskur, helst feitur fiskur. Annars borða ég alveg kjöt, en reyni að hafa vel af grænmeti með.

Hvað setur þú á pitsuna þína? Gráðaost og ansjósur. Set gráðaostinn í frysti í rúmlega 30 mín. og myl hann frosinn yfir pitsuna. Já og pitsa með banönum og gráðaosti er nýjasta æðið.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur borðað? Fýll. Var einu sinni í fýlaveislu og var ekki alveg að fíla mig þar. Það var samt ákveðin stemning að upplifa þetta og ég hefði ekki viljað sleppa því. Ég afþakkaði pent ábótina en þegar ég kom heim setti ég fötin í þvottavélina og fór í sturtu.

Matur sem þú gætir ekki lifað án: Gott súkkulaði, kaffi og croissant.

Uppáhaldsdrykkur: Vatn.

Besta snarlið: Möndlur.

Hvað kanntu best að baka? Þessa dagana baka ég oft nutellapitsur sem eru næstum því óbærilega góðar. Ætli ég baki ekki oftast franska súkkulaðitertu, snúðaköku og rabarbarapæ. Allar þessar uppskriftir, og sögurnar á bak við þær, eru á matarbloggsíðunni minni.

Hvenær eldaðirðu síðast fyrir einhvern? Í sumar elda ég fyrir einhvern á hverjum degi, en ég er að vinna á dásamlegu sveitahóteli í hinum ægifagra Breiðdal og þar legg ég mig fram um að gleðja bragðlauka fólks daglega. 

Besta uppskriftabókin: Ætli það sé ekki nýjasta bókin mín í hvert sinn. Núna seinast keypti ég mér bók um ítalska matseld og fletti henni oft og hef prófað nokkrar uppskriftir.

Sakbitin sæla: Kókosbollusukk eins og ég kalla það. Þá er blandað saman við þeyttan rjóma kókosbollum, Nóa-kroppi, sérrý-vættum makkarónum, ferskum ávöxtum og ýmsu fleiru.

Uppáhaldsávöxtur: Mangó, bragðgóður og passlega sætur. 

Ef þú fengir Vigdísi Finnbogadóttur í kaffi, hvað myndir þú bjóða upp á? Því er nú fljótsvarað. Hún fengi Draum forsetans. Í norskri uppskriftabók birtist fyrir mörgum árum uppskrift af rabarbaraköku með marengs yfir. Uppskriftin er frá Vigdísi sjálfri og heitir Draumur forsetans. Nokkrum sinnum hef ég nefnt við Vigdísi að baka kökuna fyrir matarsíðuna mína en hún kemur sér alltaf fimlega undan því með því að segja: Góði Albert minn! Ég er löngu hætt að baka með kaffinu. Uppskriftina má finna á Albert eldar og heitir Draumur forsetans.

mbl.is