Geggjað grískt pasta

mbl.is/Yammie´s Noshery

Þessi réttur er eins og klipptur út úr grísku sumarævintýri enda sameinar hann helstu perlur grískrar matarmenningar á einum disk.

Grískur pastaréttur

Handa fjórum

 • Nokkrar matskeiðar ólífuolía
 • 1 tsk. þurrkað oreganó
 • salt og pipar
 • tvær kjúklingabringur (eða úrbeinuð læri)
 • 250 g spaghettí eða núðlur
 • 2 hvítlauksrif, pressuð eða smátt söxuð
 • 1 lítill laukur, sneiddur
 • 1 bolli ferskt spínat, lauslega skorið
 • 1/3 bolli svartar ólífur, steinlausar
 • 1/3 bolli kirsuberjatómatar
 • 1/3 bolli niðursoðin þistilhjörtu, gróft brytjuð
 • smávegis af fersku oreganó
 • fetaostur

Aðferð:

 1. Hitið olíuna á pönnu, kryddið kjúklingakjötið með salti, pipar og oreganó.
 2. Steikið kjötið við meðalhita og látið krauma undir loki í u.þ.b. 10 mín. á hvorri hlið eða þar til það er gegneldað. Takið af pönnunni og setjið til hliðar.
 3. Sjóðið spaghettí/pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
 4. Bætið nokkrum matskeiðum af ólífuolíu á pönnuna (ef þarf), setjið lauk og hvítlauk út í og brúnið lauslega. Bætið síðan spínati, ólífum, kirsuberjatómötum og þistilhjörtum út í ásamt ferskum oreganólaufum. Eldið þar til spínatið er orðið mjúkt og tómatarnir farnir að springa.
 5. Skerið kjúklinginn í þunnar sneiðar eða bita og bætið út á pönnuna.
 6. Látið vatnið renna af pastanu og dreifið yfir það smávegis ólífuolíu, salti, pipar og oreganó.
 7. Hellið því síðan á pönnuna og blandið öllu saman.
 8. Dreifið fetaosti og smávegis oreganó yfir réttinn og berið fram.
mbl.is/Yammie´s Noshery
mbl.is