Jólanýjungar frá Nóa-Síríusi vekja viðbrögð

„Við erum að sleppa öllum jólavörunum lausum þessa dagana,“ segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa-Síríusar, um nýju vörurnar sem eru að koma í verslanir þessa dagana.

Ljóst er að spennan er mikil því facebooksíða Nóa Síríus er á hliðinni og menn halda vart vatni af spenningi. 

„Miðað við þær færslur sem við höfum sett á Facebook leynir spennan sér ekki hjá Íslendingum og við getum hreinlega ekki beðið eftir að allir fái að smakka,“ segir Silja um viðtökurnar en jólavörurnar í ár eru: piparkökusúkkulaði, Pralín 56% með myntu, karamellusúkkulaðirúsínur, piparmyntukropp og piparmyntukúlur

„Myntan er svo sannarlega jólabragðið og við erum á fullu að reyna að koma öllu út núna, myntukúlurnar koma í dag á markað, karamellurúsínurnar á morgun vonandi, Pralín 56% er komið ásamt piparkökusúkkulaðinu og þá hefst biðin eftir endurkomu piparmyntukroppsins sem sló í gegn árið 2015,“ segir Silja að lokum og ljóst er að jólin verða sérlega sæt í ár.

mbl.is