Borðar bara ávexti og missti 30 kíló

mbl.is/Instagram

Ekki nóg með að ávaxtaætan Tina Stoklosa hafi bókstafleg umturnað lífi sínu til að aðlagast nýjum lífstíl heldur er hún einnig hætt að tannbursta sig.

Ef við bökkum aðeins aftur þá hefst þessi frétt á því að hin 39 ára gamla Stoklosa ákvað fyrir fimm árum að hreinsa iðrin í aðdraganda jóla og borða einungis ávexti. Eftir vikuna fann hún mikinn mun á sér og var ekki frá því að þetta væri algjörlega málið fyrir sig. Hún skipti yfir í ávaxtamataræði en fyrstu tvö árin svindlaði hún reglulega. Það var svo fyrir þremur árum að hún ákvað að taka lífstílinn alla leið og gerast alfarið ávaxtaæta og flytja til Balí. Það má segja að sé mjög gáfuleg ákvörðun í ljósi þess að þar er að finna úrval exótískra ávaxta sem eiga lítið sameiginlegt með því sem fæst í hefðbundinni matvöruverslun. 

Stoklosa hafði alltaf átt í vandræðum með vigtina en með nýja mataræðinu hefur hún lést um ein 30 kíló án þess að hafa neitt sérstaklega fyrir því. Stoklosa segist innbyrða frá 2.000 hitaeiningum upp í 4.000. 

Að auki sé hún hætt að tannbursta sig þar sem trefjarnar í ávöxtunum sjái um að hreinsa þær. Hún hafi farið til tannlæknis nýlega og hann hafi þurft að kalla til kollega sína til að dást að tönnum hennar. 

Stoklosa hafi alltaf verið einhleyp en í dag er hún í sambandi við 26 ára gamlan Belga sem sé jafnframt ávaxtaæta og býr einnig á Bali. 

Hægt er að fylgjast með ævintýrum parsins á YouTube-rás þeirra. 

Tina Stoklosa og Simon Beun.
Tina Stoklosa og Simon Beun. mbl.is/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert