Ómótstæðilega holla gulrótakakan

mbl.is/Salt eldhús

Meistari Sirrý í Salti eldhúsi á þessa snilldaruppskrift sem er fullkomin í alla staði. Jafn bragðgóð og við er að búast en inniheldur minni sykur. Algjör snilld!

Hægt er að nálgast heimasíðu Salts eldhúss HÉR.

Holla gulrótakakan

Margir hafa áhuga á að minnka við sig sykur og við í Salti eldhúsi höfum það að reglu að sleppa sykri nema hann sé algjörlega ómótstæðilegur í formi gómsætrar köku (sem er reyndar ansi oft). Þessi uppskrift að gulrótaköku varð til í tilraun til að baka köku án þess að nota hvítan sykur eða hvítt hveiti. Útkoman var frábær og langar okkur að deila henni með ykkur. Við notuðum stórar Medaljon-döðlur þannig að ef þið notið þessar litlu þarf að bæta aðeins við magnið. Þið getið líka sleppt því að nota hunangið og bæta þá aðeins við af döðlum. Það á líka við um kremið, nota 5 döðlur ef þið notið ekki hunang.

  • 3 egg
  • 1-2 bananar, vel þroskaðir (150 g án hýðis)
  • 10 stórar Medaljon-döðlur, steinhreinsaðar
  • 3 msk. hunang
  • 6 msk. olía
  • 2 dl heilhveiti
  • 1 ½ tsk. lyftiduft
  • ½ – 1 tsk. kanell
  • 3-4 meðalstórar gulrætur, rifnar fínt á rifjárni
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl valhnetur eða pecan-hnetur, saxaðar gróft
  • 1 dl rúsínur

Hitið ofninn í 180°C. Setjið egg, banana, döðlur (án steina) og hunang í matvinnsluvél og vinnið þar til vel blandað saman. Þið getið sleppt hunangi ef þið viljið ekki nota neitt sætuefni og bæta þá við 5 döðlum. Bætið olíu, hveiti, lyftidufti og kanel í og blandið þar til samlagað, passa samt að hræra ekki of mikið. Bætið gulrótum, kókosmjöli, valhnetum og rúsínum í og vinnið saman með stuttum slögum þar til rétt blandað saman. Hellið í form 22-24" stórt. Gott að setja bökunarpappír á botninn og smyrja hliðar með olíu. Bakið í miðjum ofni í 40 mín. Takið kökuna úr forminu og kælið. Smyrjið kremi ofan á og skreytið með límónu eða sítrónuberki.

Krem:

  • 200 g rjómaostur
  • 3 msk. hunang
  • ½ límóna, örlítið af safa í kremið og börkur rifinn ofan á kökuna

Blandið öllu saman og smakkið til með meira af hunangi eða límónu.

mbl.is/Salt eldhús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert