Ný Krónuverslun opnar með lausnir fyrir fólk á hraðferð

mbl.is/Hörður Ásbjörnsson

Ný verslun Krónunnar opnar í dag í Skeifunni 11d og eru þá verslanirnar orðnar tuttugu talsins. Í búðinni verður lögð áhersla á að gera fólki kleift að fara í gegnum verslunina á skemmri tíma, grípa með sér hollan hádegisverð á góðu verði eða stökkva inn eftir einfaldri lausn á kvöldmatnum á leið heim úr vinnu.

Það er skýrt markmið Krónunnar að leggja sitt af mörkum við að einfalda hversdaginn fyrir viðskiptavini sína. Því var lögð áhersla á að gera fólki kleift að fara í gegnum verslunina á hraðferð til að kaupa inn til venjulegra heimilisþarfa en jafnframt auka framboð hollari skyndibita á ferðinni, hvenær sem er dagsins. Þá verða Korter í 4 réttir Krónunnar vel framsettir en það eru einfaldar og fljótlegar uppskriftir Krónunnar þar sem allt hráefni í réttinn fæst á sama stað innan verslunarinnar. Við hönnun verslunarinnar var haft að leiðarljósi að lágmarka þann tíma sem verslunarferðin tekur og er hún því búin sjálfsafgreiðslukössum til að stytta afgreiðslutímann. Auk þess voru umhverfismarkmið Krónunnar í forgrunni en verslunin er búin lokuðum kælum sem skilar 25-30% orkusparnaði, notast er við led-lýsingu og ekki verður hægt að fá plastburðarpoka í versluninni.

„Við hjá Krónunni erum meðvitum um að viðskiptavinir Krónunnar eru oft tímabundnir og viljum leggja okkar af mörkum til að einfalda líf þeirra. Með nýju versluninni í Skeifunni vildum við því koma til móts við þarfir viðskiptavina Krónunnar og auka þjónustuna við hverfin í kring sem og þann stóra hóp sem starfar á svæðinu. Aukið aðgengi að hollari skyndibita á góðu verði, hvenær sem er dagsins, einfaldleiki og tímasparnaður ásamt áherslu okkar á umverfissjónarmið voru því allsráðandi við hönnun búðarinnar,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Sérstök opnunartilboð verða alla helgina, eða á meðan birgðir endast, í nýju versluninni í Skeifunni, þar sem verslunin Víðir var áður til húsa. Afgreiðslutími verslunarinnar er frá 9 – 21 alla daga vikunnar að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is/Hörður Ásbjörnsson
mbl.is/Hörður Ásbjörnsson
mbl.is/Hörður Ásbjörnsson
mbl.is/Hörður Ásbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert