Forkunnarfagurt í Laugardalnum

Borðplássið er sérstaklega mikið og gott þannig að ákveðið var …
Borðplássið er sérstaklega mikið og gott þannig að ákveðið var að sleppa því að hafa eyju. mbl.is/SJ

Í forkunnarfögru húsi í Laugardaglum tóku ung hjón rækilega til hendinni í rúmlega 200 íbúð sem þau keyptu árið 2017. Ekki var vanþörf á þar sem engu líkara var en að húsnæðið hefði legið í dvala undanfarin fjörutíu ár eða svo.

Það var ljóst að mikið verk væri fyrir höndum en grunnurinn var góður og þar sem þau hjón eru fram úr hófi laghent og smekkleg þá var strax ljóst að þrátt fyrir að verkið kostaði blóð, svita og tár, þá yrði útkoman stórkostleg. Heimilisfaðirinn, Sigurjón Jónasson á heiðurinn að allri smíðavinnu og gott betur.

Háfurinn er mikið eldhúsprýði.
Háfurinn er mikið eldhúsprýði. mbl.is/SJ

Í eldhúsinu var allt gamalt rifið út fyrir utan tvo skápa sem þóttu svo fallegir að ekki var hægt að farga þeim. Eldhúsið hafði áður skipst upp í eldhús og borðkrók en húseigendur vildu umfram allt hafa gott vinnupláss og nýta rýmið sem best. Ákveðið var að hafa ekki eyju enda var ekki talin þörf á því.

Eldhúsinnréttingin er frá Kvik. „Ekki síst vegna frábærrar þjónustu en hann Hólmgeir hjá Rafha er algjör snillingur. Svo eru þeir með bestu skúffur sem hægt er að fá. Þær eru bæði djúpar og breiðar og þola gríðarlega mikla þyngd,“ segja þau hjón um skúffurnar sem spila lykilhlutverk í skipulaginu. Ekki var talin þörf á efri skápum þar sem feikinóg var af skápaplássi. Búrskápurinn er mikil völundarsmíði en um er að ræða skáp sem Sigurjón smíðaði ofan á hillur og marmara og þjónar hlutverki búrskáps. Fyrir vikið er hægt að fela allt það sem oft getur farið í taugarnar á húseigendum og maður vill helst ekki að sjáist – eins og kaffivél og brauðrist.

Búrskápurinn er sérstaklega skemmtilega útfærður og nýtist vel en smíðaður …
Búrskápurinn er sérstaklega skemmtilega útfærður og nýtist vel en smíðaður var skápur ofan á skúffueiningar og marmaraplötu. mbl.is/SJ

Gólfið er líka eitthvað sem mikla athygli vekur en allt heimilið er parketlagt með fiskibeinaparketi úr hvíttaðri eik. Heildargólfflöturinn er 180 fermetrar og því brugðu eigendur á það ráð að fara til Bretlands og kaupa parketið þar og flytja heim. Það hafi munað þau meira en helmingi í kostnaði en síðan lögðu þau parketið sjálf.

Eldhúsið er í alla staði hið glæsilegasta. Hvít innréttingin með shaker framhliðunum gefur eldhúsinu mikinn karakter. Marmarinn setur svo punktinn yfir i-ið en hann kemur frá steinsmiðjunni Rein. Heimilistækin eru öll frá SMEG og keypt í Eirvík og eru ótrúlega falleg.

Eitt vekur þó athygli blaðamanns en það er svartur vaskurinn sem er festur undir marmaraplötuna og er paraður saman við svört blöndunartæki. Vaskurinn er úr granít og er klettþungur. Að sögn eigenda er þessi svarti litur gegnumgangandi þema í allri íbúðinni. Þetta hafi upphaflega verið hugmynd sem þau rákust á inn á Pinterest sem þau langaði að prófa. Útkoman sé nákvæmlega eins og þau vildu og ekki sé annað hægt en að vera hæstánægð með útkomuna.

Eldhúsið er einstaklega stílhreint og fallegt. Svört heimilistæki prýða eldhúsið …
Eldhúsið er einstaklega stílhreint og fallegt. Svört heimilistæki prýða eldhúsið og taka sig vel út. mbl.is/SJ

Eini efri skápurinn sem er í eldhúsinu er gamall skápur sem var í eldhúsinu. „Okkur þótti þessi skápur svo óskaplega fallegur að við leyfðum honum að halda sér og pússuðum hann upp. Hann var svo málaðlur í gráum möttum lit – þeim sama og við notuðum á allar innihurðirnar í íbúðinni. Til stendur að setja lýsingu inn í skápinn við tækifæri,“ segja þau hjón að lokum og eru að vonum ánægð með útkomuna.

Marmarinn kemur frá Rein þar sem Sigurjón segir að þau …
Marmarinn kemur frá Rein þar sem Sigurjón segir að þau hafi fengið framúrskarandi þjónustu. mbl.is/SJ

Hvaðan eru græjurnar?

Eldhústæki: SMEG

Innrétting: Kvik

Háfur: SMEG háfur sem smíðað var yfir og klætt með messing.

Gólfefni: Fiskibeinaparket úr hvíttaðri eik. Keypt erlendis og flutt hingað heim.

Loftljós: Multi-Lite Pendant frá Gubi

Borðplata: Marmari frá Rein

Eldhúsinnréttingin er frá Kvik og segir Sigurjón að það hafi …
Eldhúsinnréttingin er frá Kvik og segir Sigurjón að það hafi ekki síst verið út af skúffueiningunum og burðargetu þeirra sem sé algjör snilld. Ekki hafi frábær þjónusta heldur skemmt fyrir. mbl.is/SJ
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert