Kolaelduð rauðrófa sem fær þig til að gráta

Kolaelduð rauðrófa að hætti RVK Meat.
Kolaelduð rauðrófa að hætti RVK Meat. Ásdís Ásgeirsdóttir

Til hvers að spara stóru orðin þegar við erum hér með uppskrift sem er það sem sérfræðingarnir myndu kalla grátlega góða? Það eru heldur engir aukvisar sem eiga heiðurinn að henni en hún kemur beint úr eldhúsi RKV Meat. Þá vitum við að hún stendur undir nafni.

Kolaelduð rauðrófa

Fyrir 2
 • 1 meðalstór rauðrófa
 • 50 g Mirin-sósa
 • 50 g eplaedik
 • smá klípa af salti

Setjið rauðrófu óskrælda í kolagrillið á blússandi hita. Látið kolaeldast þar í 40 mínútur, snúið eftir 20 mínútur.

Takið úr kolunum og látið kólna aðeins í stofuhita. (Einnig má baka rauðrófuna í venjulegum ofni eða á gasgrilli).

Skrælið eða kroppið hýðið af. Skerið í óreglulega bita og setjið í „vacuum“-poka með Mirin-sósu, eplaediki og klípu af salti.

Eldið á gufu í 85°C í sous vide-potti þangað til rauðrófurnar eru tilbúnar. Gott að byrja á 20 mínútum. (Fyrir þá sem ekki eiga sous vide-tæki er hægt að sjóða vatn í potti og slökkva undir þegar fer að sjóða. Þá er loftþétti pokinn með bitunum settur út í pottinn og látinn malla þar í 20 mínútur).

Heslihnetukrem

 • 40 ml sojamjólk
 • 20 g soðnar kartöflur, hýðislausar
 • 50 ml heslihnetuolía
 • 60 ml olía
 • salt eftir smekk

Setjið sojamjólk og kartöflur í blandara og vinnið vel saman. Bætið olíum varlega út í þar til blandan þykknar. Kryddið til með salti.

Fáfnisgrasolía

 • 1 hluti fáfnisgras
 • 2 hlutar olía

Vinnið vel saman í blandara þangað til olían hitnar og látið svo renna í gegnum síuklút eða kaffipoka og kælið.

Setjið heslihnetukrem á disk og rauðrófurnar þar yfir og stráið skornum heslihnetum yfir. Skreytið með fáfnisgrasolíu og ef til vill dilli.

Almar Ingvi Garðarsson, eigandi og veitingastjóri, og Guðmundur Víðir Víðisson, ...
Almar Ingvi Garðarsson, eigandi og veitingastjóri, og Guðmundur Víðir Víðisson, eigandi og yfirkokkur RVK Meat. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is