Félagsmiðstöðin í Laugalæk

Ásdís Ásgeirsdóttir

Það er notaleg stemning á Kaffi Laugalæk sem stendur við samnefnda götu. Innréttingar eru skandinavískar og á einum vegg er blómlegt veggfóður sem gefur staðnum hlýlegan blæ. „Þetta eru norrænar plöntur, jurtir eins og rabarbari, fjólur og baldursbrár,“ segir Kristín Björg Viggósdóttir sem á og rekur Kaffi Laugalæk ásamt manni sínum Birni Haukssyni. Staðinn opnuðu þau haustið 2016. Einnig er þar gallerí og barnahorn í sérsal en Kaffi Laugalækur er í fallegu húsnæði þar sem áður var Verðlistinn. Uppi á lofti er svo hostel sem Björn rekur ásamt bróður sínum.

„Við byrjuðum með þá hugmynd að vera kaffihús en erum í raun orðin bæði veitingastaður og bar. Við köllum þetta stundum kaffimatbar, en hér er opið frá morgni til kvölds alla daga,“ segir Kristín.

Allir aldurshópar

„Það er nóg að gera hjá okkur og við erum með góðan fastakúnnahóp,“ segir hún og Björn bætir við að dögurðurinn um helgar sé ákaflega vinsæll.

„Hingað koma alls konar klúbbar; saumaklúbbar og fjölskylduhópar. Það er mjög breiður aldurshópur, allt frá gamla fólkinu niður í börnin. Svo á kvöldin kemur fólk að fá sér bjór,“ segir hann.

„Við erum hverfisveitingahús og svo er þetta eins konar félagsmiðstöð á kvöldin. Við sjáum líka stundum fólk skrifa og sjáum svo síðar að búið sé að gefa út bók eftir viðkomandi,“ segir hún.

Listaháskóli Íslands er í nágrenninu og segjast þau fá bæði marga nemendur og kennara þaðan. „Svo eru margir fyrrverandi nemendur að sýna hérna í galleríinu. Það eru sýningar kortlagðar út árið.“

Beint frá býli

Á matseðlinum eru súrdeigspítsur, hamborgari, veganborgari, súpur og kökur, svo eitthvað sé nefnt.

„Við reynum að hafa hráefnið beint frá býli og stílum inn á að hafa fjöldskylduvænan matseðil,“ segir Björn.

„Við erum með mestu gæðin í kaffi, tei og kjöti. Margir réttir eru nefndir eftir því hvaðan þeir eru en við leggjum mikið upp úr því að vera í nánu samstarfi við birgjana okkar. Sumt hráefnið er beint úr hverfinu og annað frá sveitabæjum á Íslandi. Grænmetið er blandað því það er ekki alltaf hægt að fá það beint frá býli,“ segir hann.

Maturinn er bæði fallegur á að líta og afar bragðgóður; það getur blaðamaður vottað!

Ásdís Ásgeirsdóttir
Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »