Hefur staðið vaktina á Stælnum í 23 ár

Gunna á Stælnum eins og hún er alla jafna kölluð.
Gunna á Stælnum eins og hún er alla jafna kölluð. Ljósmynd/Aðsend

Starfsaldur á veitingastöðum hérlendis er ekki hár samanborið við aðrar atvinnugreinar. Það þykir því saga til næsta bæjar þegar starfsmenn ná háum starfsaldri — hvað þá 23 árum á sama staðnum. Guðrún Hilmarsdóttir, sem alla jafna er kölluð Gunna, hefur starfað á veitingastaðnum American Style í hartnær aldarfjórðung og er að sögn þeirra sem til þekkja, hjartað í staðnum.

„Mér hefur alltaf liðið afskaplega vel hér á Stælnum og hef ekki séð nokkra ástæðu til þess að fara neitt. Brosandi viðskiptavinir eru það sem að hefur haldið mér við efnið í öll þessi ár,” segir Gunna, en hamborgararnir sem hún hefur borið á borð skipta vafalaust tugum þúsunda.

American Style — eða Stællinn eins og fastagestirnir kalla hann — fagnar 35 ára afmæli sínu nú í sumar og af því tilefni hafa átt sér stað skemmtilegar uppfærslur á staðnum. Bæði matseðli sem og í útliti og hönnun.

„Mér líst mjög á breytingarnar á staðnum, þó að ég sé nú vanaföst í eðli mínu. Skemmtilegasta breytingin að mínu mati er nýja barnahornið sem er miklu stærra og skemmtilegra en það sem fyrir var,” bætir Gunna við. 

Meistarakokkarnir Viktor Örn og Hinrik Lárusson endurhönnuðu Stælborgarann á dögunum. Helsta breytingin er að kjötið sem hefur alltaf verið 90 gr. er nú 120 gr. Eins var fitumagnið í kjötinu aukið og er nú 20%. Þá var borgarinn settur í nýtt og enn mýkra hamborgarabrauð. 

„Það sem mér finnst skipta mestu máli er að hamborgarinn sjálfur er orðinn enn safaríkari og ljúffengari en hann var, en samt heldur hann sérkennum sínum. Þetta er sami gamli Stælborgarinn, bara miklu betri,” bætir Gunna við.

mbl.is