Bestu blettatrixin í bransanum

Ljósmynd/Colourbox

Þegar blettur kemur í flík er þumalputtareglan sú að bregðast hratt við. Ekki láta sumsé blettinn ómeðhöndlaðan í lengri tíma. Hér er listi yfir ráð frá sérfræðingunum í Good Housekeeping sem verja megninu af vinnutíma sínum í að rannsaka bletti.

Notaðu kalt vatn. Skolaðu blettinn eins fljótt og kostur er með köldu vatni. Volgt vatn eða heitt getur valdið því að bletturinn fer ekki.

Ekki djöflast í blettinum. Snúðu flíkinni á rönguna og nuddaðu blettinn varlega. Ef þú nuddar hann af offorsi stækkar hann oftast.

Sápa er ekki svarið. Oftar en ekki festist bletturinn við notkun á sápu.

Ekki nota salt á rauðvín. Það festir blettinn. Ef þú færð rauðvínblett á þig fjarri heimilinu skaltu nota sódavatn. Gosið í vatninu kemur í veg fyrir að bletturinn festist. Settu flíkina í þvottavélina um leið og þú kemur heim.

Ekki rugla í blettaeyðum. Þótt þú eigir margar gerðir af blettaeyði getur verið varasamt að nota fleiri en einn. Ólík efni geta valdið efnaskiptum sem geta gert illt verra.

mbl.is