Klassísk hjónabandssæla eins og hún var í gamla daga

Ljósmynd/Linda Ben

Hjónabandssæla hefur verið hluti af íslensku veisluhaldi frá því elstu menn muna og því nauðsynlegt að kunna uppskriftina að henni. Hér bakar Linda Ben fyrir okkur af sinni alkunnu snilld en uppskriftin á sér fallega sögu og stendur svo sannarlega fyrir sínu.

„Ég elska að fletta í gegnum gömlu uppskriftarbækurnar hennar mömmu og geri það reglulega. Það er bara eitthvað við þessar gömlu góðu uppskriftir sem lætur manni líða svo vel. Í uppskriftabókinni hennar mömmu eru líka bara góðar uppskriftir sem voru handskrifaðar inn í bókina,“ segir Linda Ben um uppskriftina.

„Ég notaði jarðarberja- og rabarbarasultuna frá St. Dalfour en það eru uppáhaldssulturnar mínar. Þær innihalda einungis 100% ávexti, það er enginn viðbættur sykur í þeim, aðeins sykurinn sem er náttúrulega til staðar í ávöxtunum og engin aukaefni.“

Hjónabandssæla

Nákvæmt aðferðarmyndband er að finna á Instagram.com/lindaben í „Hjónabandssæla“ highlights.

  • 200 g smjör, mjúkt
  • 100 g púðursykur
  • 2 egg
  • 150 g hveiti
  • ¾ tsk. lyftiduft
  • ¾ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. kanill
  • 200 g haframjöl
  • 1 krukka jarðarberja og rabarbarasulta frá St. Dalfour
  • 50 g haframjöl

Aðferð:

  1. Byrjið á því að kveikja á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir. Takið 20×30 cm form (líka hægt að nota 25 cm smelluform) og klæðið það með smjörpappír. Best er að brjóta það alveg ofan í svo það liggi slétt ofan í forminu.
  2. Hrærið saman smjör og púðursykur, setjið svo eggin út í, eitt í einu.
  3. Setjið hveitið, lyftiduftið, matarsódann, salt og kanil út í, blandið saman. Bætið haframjölinu saman við, hrærið þar til blandað saman.
  4. Takið ¾ af deiginu og pressið niður í formið, passið að það fari í hornin líka og sé alls staðar jafn þykkt.
  5. Smyrjið sultunni yfir allt deigið.
  6. Setjið haframjölið út í restina af deiginu og blandið létt saman, dreifið yfir kökuna, fallegt að setja aðeins meira af haframjöli yfir.
  7. Bakið í ofni í u.þ.b. 25 mín.
Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert