Íslenska haustuppskeran í búðir

Ljósmynd/Aðsend

Bændamarkaður Krónunnar er að verða fastur liður á haustin en þá kemur ný uppskera í búðir fyrir helgarnar. Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar, segir haustið alltaf sérstakt tilhlökkunarefni því þá komi grænmetið til þeirra ferskt daginn eftir uppskeru. „Við í Krónunni leggjum mikla áherslu á íslenska framleiðslu og viljum gera íslensku grænmeti hátt undir höfði. Við leggjum mikið upp úr upplifun í verslunum okkar og stillum grænmetinu, sem er umbúðalaust, litríkt og fallegt, fram á skemmtilegan hátt svo viðskiptavinir okkar upplifa skemmtilega bændamarkaðsstemningu,“ segir hún.

Bændamarkaðurinn spannar þrjár til fjórar helgar á haustin, eða á meðan haustuppskeran leyfir. Íslenska grænmetið er í minna plasti og allur flutningur þess er kolefnisjafnaður.

„Við vildum óska að við hefðum svona flott úrval af íslensku grænmeti allt árið um kring og vonandi verður það einhvern tímann. Þangað til mælum við með því að fólk láti þetta ekki framhjá sér fara. Íslenska haustuppskeran í ár býður upp á svo flott úrval af grænmeti sem við erum ekki vön að sjá alla jafna, t.d. fjólublátt blómkál, græna tómata, hnúðkál, gulrætur með grasi og glænýjar nýuppteknar kartöflur, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hjördís.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is