Bjórplönturnar á Ölverki slá í gegn

Brugghúsið Ölverk í Hveragerði, selur bjórplöntur sem hafa hlotið mikla …
Brugghúsið Ölverk í Hveragerði, selur bjórplöntur sem hafa hlotið mikla athygli. mbl.is/Ölverk

Í blómabænum Hveragerði er brugghúsið Ölverk að finna. Hér gæða gestir sér á ljúffengum pítsum, brugguðum bjór – og fara heim með bjórplöntu undir höndum ef vill.

Við náðum tali af Laufeyju Sif Lárusdóttur, framkvæmdastjóra og einum eigenda Ölverks Pizza & Brugghús, og spurðum hana nánar út í blómabörnin sem fá bjórsopa til að auka vöxt.

Úr óvissu í plönturæktun

Sumarið hjá Ölverki hefur verið á óvenjulegu nótunum, rétt eins og hjá svo mörgum öðrum veitingahúsum á landinu. Ölverk var opnað árið 2017 og segir Laufey að ekkert hafi getað undirbúið þau fyrir þá óvissu og lærdómsríku tíma sem sköpuðust í mars síðastliðnum. „Það skipti sköpum að leggja ekki árar í bát heldur vinna með aðstæðunum og hugsa í lausnum. Og það gerðum við með okkar frábæra starfsfólki og óvenjulegum sóttvarnaaðgerðum, eins og t.d. með öllum kaktusaborðunum okkar sem vöktu lukku og gera ennþá. En í staðinn fyrir að setja stóla upp á borð eða merkimiða um það að viss borð væru ekki í notkun fylltum við borð og gangvegi af plöntum til þess að fylgja eftir tveggja metra reglunni og notumst ennþá við þessa aðferð í dag,“ segir Laufey.

Sendiherrar Ölverks

Það hefur ekki farið framhá neinum sem hefur heimsótt Ölverk síðustu mánuði, eða fylgst með á samfélagsmiðlunum, að lífið í brugghúsinu snýst mikið um pítsugerð, bjór og plönturæktun. „Það er nefnilega ekki nóg að bjóða upp á frábærar pítsur og enn betri bjór, það er líka nauðsynlegt að umhverfi veitingastaðarins sé hlýlegt og með sjáanlega sál. Og hvað er betra en hafsjór af exótískum plöntum sem allar þurfa mikla athygli og væntumþykju?“ segir Laufey.

„En eftir að hjólin fóru að snúast varðandi bjórlínuna okkar og þá staðreynd að samkvæmt lögum er okkar litla handverksbrugghúsi óheimilt að selja bjór beint til áhugasamra viðskiptavina lögðum við höfuðið í bleyti varðandi það hvað væri  á eftir pítsu auðvitað  best að geta keypt á Ölverki og tekið með sér heim. Þá sáum við tækifæri til þess að setja upp lítinn gjörning eða pop-up-markað þar sem við seljum bjórkaktusa og bjórplöntur í Ölverks-bjórdósum. Hver og ein planta var ræktuð af mikilli ást, umhyggju og svo auðvitað einum dropa af Ölverks-bjór, segir Laufey.“

Laufey segir jafnframt að gestir hafi alltaf heillast mikið af plöntunum þeirra og óskað eftir því að ættleiða hinar og þessar plöntur sem margar hverjar eru fjörgamlar og kenjóttar – með afbrigðum. En nú gefst loksins tækifæri til þess að eignast eitthvað af afkvæmum þeirra. „Það hefur alltaf verið draumur okkar að gestir geti tekið meira af Ölverki með sér heim og á meðan sala á bjór út úr húsinu er ekki möguleiki eru kaktusarnir hinir fullkomnu Ölverks-sendiherrar.“

Pítsa fyrir þá sem kjósa að lifa á brúninni

Flest okkar muna eftir pítsunni sem braut netið í vor, eða hin mjög svo umdeilda kívípítsa sem naut það mikilla vinsælda að hún fékk varanlegt pláss á matseðlinum. „Við höfum okkur til skemmtunar verið að kynna til leiks hinar og þessar pop-up-pítsur, t.d. sterkasta pítsu Íslands?  sem verður í sölu í skamman tíma núna seinnipart mánaðarins. Einnig er vert að taka það fram að októberpítsan okkar verður algjörlega tryllt! Hvernig hún nákvæmlega verður er ennþá hernaðarleyndarmál, en ég get samt sagt að þetta verður pítsa í anda október og mun ekki svíkja þá matgæðinga sem kjósa að lifa á brúninni,“ segir Laufey, sem hefur sannarlega kveikt á áhuga okkar og við bíðum í ofvæni eftir að október láti sjá sig á dagatalinu.

Eina brugghús landsins sem nýtir jarðgufu við framleiðsluna

Laufey segir að gamli góði Hveragerðisrúnturinn sé enn í fullu gildi. Fjölmargir Íslendingar hafa verið á faraldsfæti í vor og sumar og stoppað við á Ölverki í eldbakaða pítsu og handverksbjór. „Það má algjörlega með sanni segja að Hveragerðisrúnturinn, sem margir þekkja frá því að hinir goðsagnakenndu áningarstaðir Eden og Tívolíið voru hérna í bænum, hafi verið endurvakinn með pomp og prakt af ferðaþyrstum Íslendingum. Okkur grunaði hreinlega ekki að það væru til svona margir Íslendingar og að við Íslendingar sem ferðamenn í eigin landi værum þetta öflug og áhugasöm um allt það sem í boði er á hverjum stað fyrir sig. Í sumar upplifðum við mikinn áhuga gesta á brugghúsinu okkar og þá sérstaklega vegna þeirri staðreyndar að við nýtum jarðgufu við framleiðslu á bjórnum og erum eina brugghús Íslands  jafnvel heimsins  sem nýtir þessa grænu orku með því móti,“ segir Laufey.

Matarkista Suðurlands

Eftir skemmtilegt ferðasumar vonast Ölverk til þess að sem flestir haldi áfram að leggja leið sína austur fyrir fjall og komi við á Ölverki. „Við á Ölverki erum ótrúlega stolt af vörunum okkar, hvort sem það eru pítsurnar eða bjórinn nú eða bjórkaktusarnir  og erum vakin og sofin yfir rekstri fyrirtækisins okkar með ánægju viðskiptavina að leiðarljósi. Hveragerði er svo sannarlega á góðri siglingu með það að verða þekkt sem aðalmatarkista Suðurlandsins, en það eru svo skemmtilega margir veitingastaðir í bænum sem allir eru færir á sínu sviði að maður gæti haldið að það hljóti bara eitthvað að vera í vatninu hérna,“ segir Laufey.

Ný bjórlína í sölu

Í haust mun Ölverk markaðssetja sína eigin bjórlínu sem fer í sölu á vel völdum börum og veitingastöðum ásamt ÁTVR og vonandi, með nýju áfengisfrumvarpi, beint út af staðnum þeirra til viðskiptavina í Hveragerði. „Handverksbjór er nefnilega fersk vara og það er hvergi betra að kaupa slíka vöru en beint frá smáframleiðanda, sem þekkir vöruna sína út og inn,“ segir Laufey að lokum.

Hver planta hefur fengið dropa af bjór sem næringu.
Hver planta hefur fengið dropa af bjór sem næringu. mbl.is/Ölverk
mbl.is/Ölverk
Laufey Sif Lárusdóttir, framkvæmdastjóri og einn eigandi Ölverk Pizza & …
Laufey Sif Lárusdóttir, framkvæmdastjóri og einn eigandi Ölverk Pizza & Brugghús. mbl.is/Ölverk
mbl.is