Fann teketil í geymslunni og græddi milljónir

Matsmaðurinn Edward Rycroft, hér með teketilinn sem er margra milljón …
Matsmaðurinn Edward Rycroft, hér með teketilinn sem er margra milljón króna virði. mbl.is/ Mark Laban / Hansons / SWNS

Ef þú hefur verið að fresta því að taka til í bílskúrnum eða geymslunni, þá er engin ástæða til þess þegar dýrmætir gersemar geta leynst á ólíklegustu stöðum.

Maður nokkur í Bretlandi fann lítinn teketill við vorhreinsun í geymslunni og hugðist fara með hann í góðgerðastofnun í hverfinu. En á svipstundu ákvað hann hins vegar að athuga hvort ketillinn væri einhvers virði og fór með hann til matsmanns. Þá kom í ljós að kínverski emaljeraði ketillinn átti rætur sínar að rekja til 18. aldar og var mun dýrmætari en nokkurn hefði grunað. Maðurinn reyndi því á heppni sína og seldi teketilinn á 69 milljónir króna.

Skrautlegi ketillinn hefur verið í fjölskyldu seljandans frá því að hann var barn – fyrst var ketillinn geymdur upp í risi og síðan í bílskúr í Derbyshire. Fjölskyldan telur að ketillinn hafi fengið að koma með heim úr ferð þegar afi þeirra var staddur í Asíu í seinni heimsstyrjöldinni – en þess má geta að fyrrum hermaðurinn hlaut Burma Star verðlaunin sem veitt eru breskum hermönnum sem þjónuðu í Búrma herferðinni á sínum tíma.

Uppboðshaldarinn Charles Hanson sagði í samtali að teketillinn hafi verið besti fundur í tiltekt í samkomubanni. Tekönnur af þessu tagi voru í tísku á tímum Qianlong keisara. Keisarinn heillaðist mjög af evrópskum glerungi og lét útfæra þessa nýju aðferð og stíl í keisarasmiðjum sínum. Á valdatíma Qianlong náði þetta listform miklum fullkomnunarhæðum með hönnun sem endurspeglar eyðslusaman smekk keisarans.

Seljandi tepottsins sem kýs að halda nafnleynd, sagði að salan muni breyta ýmsu í lífi fjölskyldunnar og hafi komið á góðum tíma. Hann hvetur einnig alla til að fara vandlega yfir allt „ruslið“ sem leynist í geymslunni heima.

Teketillinn sem seldist nú á dögunum á 69 milljónir króna …
Teketillinn sem seldist nú á dögunum á 69 milljónir króna á uppboði. mbl.is/ Mark Laban / Hansons / SWNS
mbl.is