Veisludrottningin klikkar ekki

Berglind Hreiðarsdóttir
Berglind Hreiðarsdóttir Kristinn Magnússon

Bókin inniheldur ógnarfjölda ómótstæðilegra rétta sem kenndir eru við saumaklúbba og almenna mannfögnuði en henta allt eins þegar verið er að gera kósí heima.

Berglind, sem sendi í fyrra frá sér Veislubókina, heldur áfram á svipaðri braut enda flinkari en flestir í að halda veislur. Hún segir að kúnstin á bak við vel heppnaðan saumaklúbb sé fyrst og fremst maturinn.

„Góður matur getur síðan verið alls konar, allt frá því að vera eitthvað sem þú hefur nostrað við í nokkra daga að því að panta dýrindisveitingar. Allir eru glaðir þegar þeir fá gott að borða og mér finnst mikilvægt að hafa smá fjölbreytni svo allir finni eitthvað við sitt hæfi. Síðan er „desrétturinn“ eins og Inga vinkona mín myndi segja eitthvað sem má ekki gleyma, það er svo gott að fá sér smá sætan bita eftir góða máltíð. Kósí stemning, kertaljós og tónlist setja síðan punktinn yfir i-ið á svona kvöldum, segir Berglind sem vílar ekki fyrir sér að blanda saman aðkeyptum veitingum og heimatilbúnum.

En hvað skal til bragðs taka ef fyrirvarinn er enginn? „Gera einfaldan rétt, til dæmis pastarétt og gott brauð og hafa síðan fallega nammiskál með alls konar gúmelaði eða ís í eftirmat... já og eitthvað gott að drekka. Vinkonur mínar í bókinni setja einmitt saman nokkra sniðuga saumaklúbba og þar eru sannarlega hugmyndir fyrir saumaklúbb á kortéri,“ segir Berglind sem deilir því jafnframt að besta trixið sé ávallt að vinna sér í haginn. „Það er gott að ákveða veitingar með fyrirvara og vinna sér eins og hægt er í haginn. Gera allt kvöldinu áður sem hægt er, leggja á borð, gera fínt og undirbúa allt matarkyns sem mögulegt er að undirbúa þá. Til dæmis má útbúa súpugrunn nokkrum dögum áður og geyma í kæli, síðan bara hita upp og bæta saman við því sem fer út í í lokin og hita gott brauð með.“

Berglind segir gott að eiga einn rétt sem klikki aldrei. Hjá henni er það uppskriftin að kjúklingasúpu vinkonu hennar sem hún segir að sé afburðauppskrift. Hún smellpassi fyrir flest tilefni og að sjálfsögðu sé uppskriftina að henni að finna í bókinni.

Hægt er að panta bókina beint frá Berglindi á vefsíðu hennar Gotteri.is en þar er að finna urmul uppskrifta, góð ráð og margt bráðsniðugt í vefversluninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert