Sniðugustu snúðar sem sést hafa

Ljósmynd/Linda Ben

Þetta er ótrúlega snjöll úrfærsla á kanilsnúðum þar sem þeir eru settir í múffuform. Það er Linda Ben. sem á heiðurinn af þessari snilld sem verður ábyggilega leikin eftir á einhverjum heimilum um helgina.

Ljósmynd/Linda Ben

Mjúkir kanilsnúðar með súkkulaði og karamellu

  • 7 g þurrger
  • 120 ml volgt vatn
  • 120 ml volg mjólk
  • ½ dl sykur
  • 80 g brætt smjör
  • 1 tsk salt
  • 1 egg
  • 450 g hveiti
  • 20 g mjúkt smjör
  • 2 dl sykur
  • 2 msk. kanill
  • 100 g suðusúkkulaði frá Nóa-Síríusi
  • 150 g Síríus-sælkerabaksturs-rjómatöggur
  • 1 dl rjómi
  • Síríus-sælkerabaksturs-karamellukurl

Aðferð:

  1. Byrjað er á að setja volgt vatn og volga mjólk ásamt gerinu í litla skál og hrært smá til að þurrgerið blotni.
  2. Setjið sykur, smjör, salt og egg í stóra skál og hrærið saman.
  3. Bætið svo nánast öllu hveitinu út í, skiljið um það bil 50 g eftir, og hellið gerblöndunni líka ofan í stóru skálina. Hnoðið deigið saman þar til allt hefur blandast vel. Deigið á að vera klístrað en ef það er ennþá mjög blautt setjið þá restina af hveitinu út í.
  4. Látið deigið hefast í 1-1½ klst eða þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð.
  5. Þegar deigið hefur hefað sig dreifið þið svolítið af hveiti á borðið, takið deigið úr skálinni og fletjið það út í um það bil 20×40 cm flöt.
  6. Blandið saman mjúku smjöri, sykri og kanil í skál, hrærið þar til blandað saman. Smyrjið fyllingunni yfir allt deigið.
  7. Saxið suðusúkkulaðið niður og dreifið yfir allt deigið.
  8. Rúllið svo upp deiginu frá 40 cm endanum í lengju og skerið hana svo í 12-15 bita.
  9. Setjið frekar stór múffuform í múffuálbakka og setjið einn snúð í hvert form.
  10. Leggið hreint viskastykki yfir og látið snúðana hefast í um það bil 30 mín.
  11. Stillið ofninn á 175°C og undir- og yfirhita.
  12. Setjið snúðana í ofninn og látið bakast í u.þ.b. 20-30 mín (tími fer eftir hversu þykkir snúðarnir eru) eða þar til þeir eru orðnir fallega gullnir á litinn.
  13. Setjið rjómatöggur í pott ásamt rjóma og bræðið saman varlega. Skiptið karamellunni á milli snúðanna og skreytið með karamellukurli.
Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert