Margra vikna undirbúningur að baki

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir marga kemur ekkert annað til greina í matinn um páskana en lambakjöt. Í Hagkaup er boðið upp á þrjár tegundir af fylltum lambalærum en að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaups, nýtur lambið alltaf mikilla vinsælda.

Við tókum púlsinn á Sigurði Reynaldssyni, framkvæmdastjóra Hagkaups, og forvitnuðumst um hvað væri helst upp á teningnum hjá viðskiptavinum í ár sem og undanfarin ár.

„Við elskum þessa stóru daga því það er svo mikið í gangi og úrvalið okkar er aldrei meira en á þessum dögum. Við erum búin að vera í margar vikur að undirbúa þessa daga og núna er allt klárt, við erum tilbúin,“ segir Sigurður. „Munum samt að mæta helst bara einn frá hverri fjölskyldu. Það er svo um að gera að nýta sér langa afgreiðslutímann til að dreifa álagi, þar sem það er 100 manna hámark í verslunum okkar.“

Að sögn Sigurðar er úrvalið af veislukræsingum mikið og má þar nefna nýsjálenskt nautakjöt, danskan humar og fleiri bragðlaukasprengjur sem ættu að tryggja fullkomið páskahald.

Eins séu hefðbundnar veislusteikur vinsælar á borð við kalkún og hamborgarhrygg og svo auðvitað lambið en lambakjöt á páskunum er hefð á mörgum heimilum. Hafa fylltu lambalærin komið einstaklega vel út.

„Við erum með þrjár gerðir í boði; döðlu- og gráðostafyllt, fíkju- og engiferfyllt og síðast en ekki síst lambalæri fyllt með camembertosti,“ segir Sigurður. „Páskalamb er klassískt en þessi fylltu læri eru skemmtileg nýjung og hafa verið vinsæl undanfarin ár, enda kaupir fólk það aftur og aftur eftir að hafa smakkað einu sinni. Að sjálfsögðu er veislulæri Hagkaups líka á sínum stað í ár. Lambalæri klikka einfaldlega ekki, það er bara svoleiðis

Að endingu vil ég minna á afgreiðslutímann um páskana, það er mikið opið og höfum við meðal annars ákveðið að hafa Skeifu og Garðabæ opna alla páskana, allan sólarhringinn. Það þarf því enginn að stressa sig á því að ná í búð um páskana,“ segir Sigurður Reynaldsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert