„Almáttugur hvað þessar tvær pítsur voru góðar"

Ljósmynd/María Gomez

„Jesús minn guð og almáttugur hvað þessar tvær pítsur voru góðar," segir María Gomez á Paz.is um þessar pítsur. „Hver myndi trúa því að það væri hægt að gera gourmet-pítsur á aðeins 10 mínútum?“

Hér notar María frosna pítsubotna frá Hattings sem hún segist hissa á að hafi ekki komið á markað fyrr – svo sniðugir séu þeir.

„Ég ákvað að gera örðuvísi pítsur og vá hvað þær voru báðar góðar. Þessi hér fyrir ofan er tilvalin kvöldmatar-gourmet-pítsa með roast beef og béarnaise sem var hreint ótrúleg. Seinni pítsan er hin fullkomna morgunverðarpítsa sem seint verður toppuð.“

Ljósmynd/María Gomez

Gourmet-pítsur með roast beef og béarnaise eða eggi og beikoni á örfáum mínútum

Roast beef-béarnaise-pítsa

 • 1/2 dl olífuolía
 • 1 geiralaus hvítlaukur eða 3-4 hvítlauksrif 
 • 1/2 tsk gróft salt 
 • 200 gr tilbúið roast beef (til sem skorið álegg í öllum verslunum)
 • tilbúin béarnaisesósa (ég kaupi 225 ml dollu frá Nonna litla í Bónus, finnst hún rosa góð) 
 • 1 poki rifinn mozzarellaostur 
 • 1 pakki frosnir Hatting-pítsubotnar

Morgunverðar-brunch-pítsa

 • Tómatsósa (þá meina ég ekki pítsusósa heldur ketchup eins og á pylsur)
 • brauðostur, má vera gouda, skólaostur eða annar
 • 1 poki mozzarellaostur rifinn 
 • 4 egg 
 • 1 bréf beikon
 • salt og pipar 
 • 1 pakki frosnir Hatting-pítsubotnar 

Aðferð

Roast beef-béarnaise-pítsa 

 1. Hitið ofn á 220°C blástur 
 2. Setjið ólífuolíu í skál og merjið hvítlaukinn út í og saltið
 3. Penslið svo pítsubotnana með olíunni og leyfið mörðum hvítlauk að vera með
 4. Stráið svo rifnum mozzarella yfir 
 5. Setjið svo eins og 50 g af tilbúnu roast beef á hverja pítsu ofan á ostinn
 6. Bakið í 10 mínútur 
 7. Setjið svo að lokum vel af béarnaise ofan á pítsuna um leið og hún kemur úr ofninum og hafið meira með til hliðar

Morgunverðar-brunch-pítsa 

 1. Hitið ofn á 220°C blástur 
 2. Setjið tómatsósu á botninn eins og ef þið væruð að setja pítsusósu 
 3. Þekið botninn með brauðostssneiðum 
 4. Setjið svo rifinn mozzarella í hring í kringum kantana eins og þið sjáið á myndum fyrir ofan svo það komi hola í miðjuna 
 5. Brjótið svo egg í bolla og setjið ofurvarlega inn í holuna
 6. Saltið eggið og piprið 
 7. Raðið beikonsneiðum í kringum eggið ofan á mozzarellaostinn 
 8. Bakið í 13-14 mínútur eða þar til eggið er til ofan á
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is