Súpan sem þú getur endalaust breytt

Ljósmynd/Colourbox

Matseld þarf oft ekki að vera flókin og hér erum við með sniðuga lausn. Við tókum hefðbundna TORO-tómatsúpu í pakka eins og flestir kannast við og útbjuggum sjö mismunandi útgáfur að súpu.

Um er að ræða einfalda og ódýra lausn en með því að bæta við kjúklingi eða ýmsu öðru góðgæti er hægt að gera einfalda súpu matarmikla og góða máltíð.

Tómatsúpa í sjö útgáfum

1. Pylsur og makkarónur

Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • 4-5 pylsur af uppáhaldspylsunni þinni
 • 3 dl heilkorna makkarónur

Aðferð:

1. Eldið súpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Sjóðið makkarónurnar og hellið svo vatninu af.

2. Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu í smá olíu.

3. Dreifið pylsubitunum og makkarónunum á milli súpuskálanna og hellið svo heitri tómatsúpunni yfir.

2. Kjúklingur og timían

Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • 300 g eldaðir kjúklingastrimlar (með salti og pipar)
 • 4 stilkar ferskt timían
 • hvítlauksbrauð (frosið)

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 180°C og hitið kjúklingastrimlana og hvítlauksbrauðið í ca 10 mín. 2. Eldið tómatsúpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. 3. Skiptið súpunni á milli fjögurra skála og toppið með kjúklingastrimlum og fersku timíani. 4. Berið fram með heitu hvítlauksbrauði.

3. Pestó og sætar kartöflur

 Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • 1 sæt kartafla, skorin í teninga
 • 4 tsk grænt pestó
 • 4 sýrður rjómi
 • olía
 • salt og pipar

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 200°C. Dreifið sætu kartöfluteningunum yfir bökunarplötu og hellið smá olíu, salti og pipar yfir. Bakið þar til kartöflurnar verða mjúkar.

2. Eldið súpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og skiptið súpunni á milli fjögurra skála. Toppið hverja skál með um það bil 1 dl af sætum kartöfluteningum, 1 tsk grænu pestói og 1 tsk sýrðum rjóma.

4. Kjúklingabaunir og kóríander

Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • 1 dós af kjúklingabaunum
 • 1 msk garam masala
 • 1 handfylli af fersku kóríander
 • ólífuolía

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 200°C. Dreifið kjúklingabaununum yfir bökunarplötu og stráið garam masala-kryddi og smá ólífuolíu yfir. Bakið í miðjum ofni í um það bil 15-20 mínútur.

2. Eldið tómatsúpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og skiptið á milli fjögurra skála. Dreifið kjúklingabaununum á milli skálanna fjögurra og toppið með fersku kóríander.

5. Hleypt egg („poached egg“) og basil

Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • 4 egg
 • salt
 • 4 msk edik
 • ferskt basil
 • nýmalaður pipar

Aðferð:

1. Sjóðið um það bil 1 l af vatni og bætið við salti og 4 msk af ediki. Lækkið hitann svo að vatnið sjóði ekki. Hrærið í vatninu svo myndist smá hringiða. Brjótið eitt egg í einu í bolla og hellið því varlega í vatnið. Látið eggin sjóða í um það bil 4 mínútur og lyftið þeim svo varlega, einu í einu, upp úr pottinum með ausu.

2. Eldið súpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og skiptið á milli fjögurra skála. Leggið svo hleypt egg í hverja skál ásamt fersku basíl og nýmöluðum svörtum pipar.

6. Bakað grænmeti og rækjur

Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • ½ grasker (butternut squash), skorið í teninga
 • 1 rauð paprika
 • 1 gul paprika
 • 1 græn paprika
 • 1 rauðlaukur
 • 3 msk ólífuolía
 • salt
 • pipar
 • 3 dl rækjur

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 200°C. Skerið grænmetið í bita og dreifið á bökunarplötu (með bökunarpappír). Hellið olíu, salti og pipar yfir. Bakið í miðjum ofni í um það bil 30 mínútur, eða þar til það er mjúkt.

2. Eldið súpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og hellið í fjórar skálar. Setjið rækjurnar í miðjuna og dreifið svo bakaða grænmetinu í kring.

7. Karamelliseraður laukur og chévre (geitaostur)

Fyrir 4

 • 1 pakki af TORO-tómatsúpu
 • 1 laukur
 • 1 msk smjör
 • 1 msk olía
 • 1 msk sykur
 • 100 g chévre (geitaostur)
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 8 sneiðar hráskinka (serranoskinka)

Aðferð:

1. Skerið laukinn í bita, hitið smjör og olíu á pönnu við meðalhita. Steikið laukinn þar til hann verður ljósbrúnn og mjúkur. Stráið sykrinum yfir og steikið í um það bil 5 mínútur í viðbót.

2. Hrærið saman chévre-geitaostinum og sýrða rjómanum í skál.

3. Eldið súpuna samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og skiptið á milli fjögurra skála. Setjið sirka 1 msk af geitaostsblöndunni, tvær hráskinkusneiðar og 2 msk af karamelliseruðum lauk í hverja skál.

mbl.is