Mexíkóski meistarakokkurinn fann ástina á Íslandi

Carlos Guani
Carlos Guani Ljósmynd/Aðsend

Dálæti Íslendinga á mexíkóskri matargerð er mikið en aðgangur að „ekta“ mexíkóskum mat hefur verið takmarkaður. Það heyrir því til tíðinda þegar veitingastaðurinn GOTT í Vestmannaeyjum heldur mexíkóska daga þar sem mexíkóski matreislumaðurinn Carlos Guani sýnir meistaratakta og reiðir fram rétti sem standa Mexíkóbúum næst hjarta.

Carlos er frá borginni Leon í Guanajuato-ríki Mexíkós. Fyrir einskæra tilviljun kemur hann hingað til lands árið 2018 og féll strax fyrir landi og þjóð. Ekki leið á löngu þar til ástin bankaði upp á og í dag er hann trúlofaður Theodóru Ágústsdóttur.

Ljósmynd/Aðsend

Carlos er úr stórri fjölskyldu og segir að amma hans beri ábyrgð á matarást hans. „Ég man eftir mér mjög ungum í eldhúsinu með ömmu og út frá því óx ástríða mín fyrir matargerð. Átján ára gamall flutti ég til Mexíkóborgar og vann á mörgum veitingahúsum, meðal annars á stað sem heitir Pujon sem var valinn einn af 50 bestu veitingastöðum heims á sínum tíma og sá þriðji besti í Suður-Ameríku. Þar var ég undir handleiðslu meistarakokksins Enriques Olvera. Í framhaldi af því fer ég til Bandaríkjanna þar sem ég vann meðal annars á Eleven Madison Park í New York,“ en fyrir þá sem ekki til þekkja er sá staður alla jafna talinn meðal þeirra bestu í Bandaríkjunum.

Örlögin höguðu því þó þannig að dvalarleyfi Carlosar rann út og ákvað hann þá að fara til Evrópu. Hann fór til Varsjár í Póllandi þar sem hann vann á ýmsum þekktum veitingastöðum uns honum bauðst að koma til Íslands.

„Vinkona mín var að vinna á GOTT í Reykjavík og benti mér á að það vantaði kokk á GOTT í Vestmannaeyjum. Ég ákvað að slá til og sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Mér hefur frá fyrsta degi verið tekið opnum örmum og þau Sigurður Gíslason og Berglind Sigmarsdóttir, eigendur GOTT, hafa reynst mér vel,“ segir Carlos sem segist ekki á förum.

„Ég kann ofboðslega vel við mig á Íslandi og vil hvergi annars staðar vera. Ég er umkringdur einstöku fólki og mér var tekið opnum örmum og hef eignast góða vini. Að auki kynntist ég unnustu minni hér, henni Theó, en við vinnum saman á GOTT,“ segir Carlos og bætir við að Vestmannaeyjar séu merkilegur staður. „Hér er svo mikil náttúrufegurð og litríkt mannlíf.“

Ljósmynd/Aðsend

Nú um helgina eru svo mexíkóskir dagar þar sem matgæðingar fá einstakt tækifæri til að gæða sér á mexíkóskum götumat eða street food eins og hann er kallaður. „Þetta verður dálítið eins og ég sé að bjóða gestum í mat heim til mín. Þetta er maturinn sem ég myndi elda fyrir mína gesti og ég hlakka til að heyra hvað gestum finnst.“

Matseðillinn verður þriggja rétta. Í forrétt verður sjávarrétta-aguachile með eplum og vanillu. Í aðalrétt verður nauta- og anda-carnitas og alvöru mexíkanskt maís-taco og í eftirrétt kókosbúðingur (e. flan) að hætti ömmu minnar,“ segir Carlos að lokum og hlakkar til að kynna gestum GOTT matargerð sína.

mbl.is